Með tilboð frá Barcelona

Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson mbl.is/Árni Sæberg

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, hefur fengið samningstilboð frá spænsku risunum í Barcelona, sem freista þess að lokka Hafnfirðinginn frá meistaraliði Veszprém í Ungverjalandi. Bætast Börsungar þar með í hóp Kiel í Þýskalandi og Paris SG í Frakklandi, sem hafa boðið Aroni samning.

„Ég held að ég hafi sagt í fyrsta viðtalinu mínu þegar ég var 15 ára gamall að draumafélagið væri Barcelona. Auðvitað er það hrikalega spennandi og mig hefur alltaf langað til þess að spila þar. Svo ég er upp með mér að þeir skuli sýna mér áhuga,“ sagði Aron við Morgunblaðið í gær. Hann ætlar að gefa sér góðan tíma til þess að liggja undir feldi.

„Ég er bara að velta því fyrir mér hvað ég eigi að gera. Ég mun gefa mér góðan tíma og ígrunda það gríðarlega vel hvar ég mun spila á næstu árum. Þetta er örugglega stærsta ákvörðun sem ég hef tekið,“ sagði Aron, en hann er samningsbundinn Veszprém út næsta tímabil og vilja Ungverjarnir sömuleiðis framlengja samning við hann.

Aron tapaði úrslitaleik Meistaradeildarinnar með Veszprém í vor, en Kiel og Paris SG komust sömuleiðis í undanúrslit – hið svokallaða „Final four“. Barcelona vann keppnina árið áður, en Aron segir ljóst að hann vilji berjast um þennan stærsta titil félagsliða. Sjálfur stóð hann uppi sem sigurvegari með Kiel árið 2012 og hefur komist í úrslitahelgina síðustu fimm árin.

„Ég er í þessu til þess að vinna. Ég vil vera í liði sem er líklegt til afreka í „Final Four“ hvert einasta ár og núna er ég að fara að hugsa um næstu fimm ár eða svo. Þannig að ég vil vera í félagi sem er alltaf með stefnuna á að vinna Meistaradeildina. Það er allt í vinnslu og ekkert frágengið.“

Sjá allt viðtalið við Aron í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »