„Einn besti leikur okkar í vetur“

Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ásbjörn Friðriksson skilaði 6 mörkum þegar FH lagði Val að velli 30:25 í fjórða úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld. 

„Þetta var ekki bara frábær sigur heldur einn besti leikur okkar í vetur. Það er hrikalega gaman að sjá þegar allir leggja í púkkið. Þegar hver einasti maður sem er inni á vellinum skilar sínu 100% þá virkar liðið vel. Þannig var það í kvöld,“ sagði Ásbjörn þegar mbl.is spjallaði við hann en FH-ingar náðu góðu forskoti strax á upphafsmínútunum og forskotið var sjö mörk þegar liðin fóru til búningsherbergja að loknum fyrri hálfleik. 

„Þetta var fyrsti leikurinn í einvíginu þar sem við erum yfir í hálfleik og komumst eitthvað yfir að ráði í fyrri hálfleik. Við byrjuðum hina leikina ekkert sérstaklega vel en strax í byrjun í kvöld virkaði vörnin vel. Hún gerði það allan leikinn og þegar vörnin er góð þá spilum við vel. Okkur tókst að breyta góðri vörn í seinni bylgju og hraðaupphlaup. Fyrir vikið fengum við nokkur einföld mörk. Þótt hraðaupphlaupsmörkin væru ekki mörg þá voru þau virkilega kærkomin. Þar liggur kannski helsti munurinn á þessum leik og tapleikjunum því við höfum ekki náð að keyra nógu mikið á Valsmennina í úrslitaleikjunum. Hraðaupphlaupsmörkin létta á sóknarleiknum og hann gekk betur fyrir vikið,“ sagði Ásbjörn við mbl.is. 

Jóhann Karl Reynisson og Orri Freyr Gíslason í miðri byltu …
Jóhann Karl Reynisson og Orri Freyr Gíslason í miðri byltu í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert