Loksins loksins komumst við í gang

Þórey Anna Ásgeirsdóttir úr Stjörnunni fær óblíðar móttökur hjá Haukakonum.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir úr Stjörnunni fær óblíðar móttökur hjá Haukakonum. mbl.is/Golli

„Ég segi eiginlega loksins loksins að við komumst í gang,“ sagði Dröfn Haraldsdóttir, markvörður Stjörnunnar, eftir 25:21 sigur á Haukum í Olís-deild kvenna þegar liðin mættust í Hafnarfirðinum í kvöld. 

Haukar áttu erfitt uppdráttar með Elínu Jónu Þorsteinsdóttur á milli stanganna hjá Haukum og stórskyttan Ramune Pekarskyte var lengi að finna fjölina. „Við skutum illa en Elín Jóna í marki Hauka varði vel, held að við höfum bara skorað eitt mark fyrstu fimmtán mínúturnar.  Við vildum auðvitað fá skytturnar í gang, þær eiga að skora nokkur mörk í hverjum leik og það var gott að Ramune hrökk í gang. Sem betur fer er deildin bara að byrja og auðvitað ætlum við okkur að vinna fleiri leiki en það var nauðsynlegt að vinna Hauka núna til að sýna hvað við getum, séum sterkari en við sýndum til að byrja með.“

mbl.is