„Þetta var frábært, ótrúlega flott“

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir. mbl.is/Árni Sæberg

ÍBV sigraði Gróttu með fimmtán marka mun í 4. umferð Olís-deildar kvenna í kvöld. Leiknum lauk 32:17 og var í raun pínlegt að horfa á síðari hálfleikinn en í honum skoruðu Eyjakonur 14 mörk gegn sex hjá Gróttu.

Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, þjálfari ÍBV, var í sjöunda himni með sigur sinna kvenna en liðið trónir nú á toppi Olís-deildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki.

Hún var nokkuð brött í viðtali við mbl.is eftir leik og sagði vörn og markvörslu hafa verið lykilatriði hjá ÍBV í leiknum.

„Þetta var frábært, ótrúlega flott. Ég er gríðarlega ánægð með stelpurnar í dag, við spiluðum vel og náðum að rúlla vel á liðinu, vörnin var frábær og markvarslan líka. Við keyrðum vel í bakið á þeim og vorum að skora mikið af auðveldum mörkum, leikplanið gekk upp í dag.“

Lovísa Thompson, leikmaður Gróttu, meiddist í upphafi leiks og var ekki meira með í leiknum. Það hefur hjálpað ÍBV-liðinu.

„Já, þær missa sinn langbesta mann. Ég hélt að þetta væri hnéð á henni fyrst og fékk nett áfall. Það er frábært að vita að þetta var ökklinn, hún verður komin sterk til baka eftir viku eða tvær.“

Er þetta munurinn á liðunum?

„Nei, það myndi ég ekki segja, alveg klárlega ekki. Þær gera jafntefli við Fram og eru í jöfnum leik við Hauka. Þær eru að standa í öllum liðunum í deildinni, það býr hellingur í þessu liði, þær eru með fullt af flottum leikmönnum.“

ÍBV-liðið hefur farið vel af stað á tímabilinu, er Hrafnhildur með sterkara lið núna heldur en síðustu tvö ár?

„Já ég myndi segja það, á meðan allar eru heilar lítum við gríðarlega vel út. Ég held að mesti munurinn sé að margir leikmenn eru búnir að bæta sig svakalega mikið andlega, sem er að skila okkur mjög miklu.“

Ásgeir Jónsson, fyrrum varnartröll, er að þjálfa liðið með Hrafnhildi, gefur hann liðinu mikið?

„Það er rosa flott að fá hann, ég er mjög sóknarsinnaður þjálfari og var með Ingibjörgu (Jónsdóttur) með mér sem er varnarsinnuð, þannig að ég vildi fá varnarsinnaðan þjálfara með mér. Það er frábært að fá hann, hann er varnarjaxl og þekktur sem slíkur, hann kemur ótrúlega flottur inn í þetta.“

ÍBV-liðið er búið að keppa við þrjú af þeim liðum sem var spáð neðstu 3 sætunum og nú fara að koma hörkuleikir, er liðið tilbúið í þá baráttu?

 „Jú, klárlega, við vitum það bæði með Stjörnuna og Fram að þetta eru lið sem við getum unnið og tapað fyrir. Þetta eru 50/50 leikir og við erum gríðarlega spenntar að fá að glíma við það núna,“ sagði Hrafnhildur að lokum sem var mjög ánægð með leik sinna kvenna. 

mbl.is