Frábær sigur Framara í Krikanum

FH-ingar taka Framarann Arnar Birki Hálfdánsson föstum tökum í kvöld.
FH-ingar taka Framarann Arnar Birki Hálfdánsson föstum tökum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framarar gerðu sér lítið fyrir og slógu topplið Olís-deildarinnar, lið FH-inga, úr leik í átta liða úrslitum Coca Cola-bikarsins í handknattleik og það á heimavelli Hafnarfjarðarliðsins. Framarar fögnuðu sjö marka sigri, 35:28.

Framarar, sem höfðu verið leiknir grátt af FH-ingum í leikjum liðanna í Olís-deildinni þar sem FH vann fyrst með 17 marka mun og síðan 13 marka mun í Safamýri, mættu mjög grimmir og ákveðnir til leiks. Þeir gáfu tóninn með því að skora þrjú fyrstu mörkin og FH-ingar komust ekki á blað fyrir en eftir sex og hálfa mínútu. Safamýrarpiltarnir léku við hvern sinn fingur í fyrri hálfleik og að honum loknum voru þeir átta mörkum yfir, 19:11.

FH-ingar gerðu ágætis áhlaup um miðjan seinni hálfleik og tókst að minnka muninn niður í fjögur mörk, 25:21, en Framarar héldu haus og innbyrtu frábæran sigur sem fáir hafa eflaust búist við miðað við gengi liðanna í vetur og viðureignir þeirra fyrr á leiktíðinni. En bikarleikir eru oftar en ekki öðruvísi og Framarar komu, sáu og sigruðu og það mjög verðskuldað.

Viktor Gísli Hallgrímsson átti mjög góðan leik í marki Framara, línumaðurinn Valdimar Sigurðsson átti stórleik og þeir Þorsteinn Gauti Hjálmarsson og Þorgrímur Smári Ólafsson spiluðu virkilega vel í frábæru liði Framara. Jóhann Birgir Ingvarsson var sá eini í FH sem var með einhverju lífsmarki.

FH 28:35 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið Frábær sigur Framara í höfn.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert