Stórleikur í Krikanum í kvöld

Ólafur Ægir Ólafsson sækir að vörn FH-inga.
Ólafur Ægir Ólafsson sækir að vörn FH-inga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir leikir fara fram í 18. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld en umferðin hófst í gær með þremur leikjum.

Í Kaplakrika er sannkallaður stórleikur þegar FH-ingar taka á móti Íslands- og bikarmeisturum Vals. Þessi lið mættust í mögnuðu einvígi um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð þar sem Valur fagnaði titlinum eftir oddaleik í Krikanum. Þegar liðin áttust við í fyrri umferðinni í Vodafone-höllinni í október unnu FH-ingar tólf marka sigur, 33:21, eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 15:5. FH er í toppsæti deildarinnar með 29 stig en Valsmenn eru í 5. sætinu með 23 stig.

Í Mýrinni taka Stjörnumenn á móti Fjölnismönnum. Stjarnan er í 7. sæti deildarinnar með 15 stig en Fjölnismenn, sem gerðu jafntefli við FH í síðustu viku, eru í 11. og næstsíðasta sætinu með 6 stig.

Báðir leikir kvöldsins hefjast klukkan 19.30.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert