Arnar hættir - Annir í vinnu

Arnar Pétursson ræðir við leikmenn sína.
Arnar Pétursson ræðir við leikmenn sína. mbl.is/Hari

Karlalið ÍBV og nýkrýndir bikarmeistarar í handknattleik eru í þjálfaraleit fyrir næsta tímabil þar sem Arnar Pétursson þjálfari liðsins hefur ákveðið að hætta þjálfun liðsins að loknu þessu keppnistímabili eins og fram kom á mbl.is í gærkvöld.

„Fyrst og fremst er ástæðan fyrir þessari ákvörðun minni annir í vinnu. Ég rek og á ásamt góðu fólki ört vaxandi fyrirtæki í Vestmannaeyjum sem er í útflutningi á ferskum fiskafurðum. Það kallar á meiri og meiri tíma og hefur gert í töluverðan tíma. Dagarnir eru langir, maður eldist og þarf meiri svefn,“ sagði Arnar léttur í samtali við Morgunblaðið.

Hann sagði ákvörðunina í sjálfu sér ekki erfiða og hafi verið tekna fyrir töluverðum tíma síðan og að félagar hans í stjórn handknattleiksdeildar ÍBV hefðu verið meðvitaðir um þetta frá því að ákvörðun var tekin.

Hafa haft góðan tíma

„Það hefur legið fyrir frá því fyrir tímabil að ég ætlaði að láta gott heita í lok þessa keppnistímabils. Ég var heiðarlegur með það og þannig hafa menn haft góðan tíma til að hugsa næstu skref og finna minn eftirmann. Framundan er lokaspretturinn í Olísdeildinni, úrslitakeppnin um Íslandsmeistaratitilinn auk átta liða úrslita í Áskorendakeppni Evrópu. Við erum í eldlínunni á öllum vígstöðvum eins og við viljum vera og þó við höfum landað einum stórum um helgina langar okkur í fleiri,“ sagði Arnar og bætti við að ekkert hik væri á sér þótt hann hefði tekið þessa ákvörun.

Sjá allt viðtalið við Arnar í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert