Sætur sigur á Svíum á EM

Íslenska liðið fyrir leikinn í dag.
Íslenska liðið fyrir leikinn í dag. Ljósmynd/HSÍ

Íslenska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri vann 35:33-sigur á Svíþjóð í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í Slóveníu í dag. 

Ísland var með 19:12 forystu í hálfleik eftir glæsilega byrjun og varð munurinn mest tíu mörk í síðari hálfleik. Svíar skoruðu fimm mörk á móti einu undir lok leiksins og voru lokamínúturnar nokkuð spennandi. Íslenska liðið hélt hins vegar út og nældi í fyrstu stigin á mótinu.

Svíþjóð gerði jafntefli við Þýskaland í fyrsta leik sínum á mótinu og er nú neðst með eitt stig, þegar einn leikur er eftir af riðlakeppninni. Ísland kemur þar á eftir með tvö stig, eins og Rúmenía, sem vann Ísland í fyrsta leik. Þýskaland er á toppnum með þrjú stig. 

Ísland og Þýskaland mætast í þriðju og síðustu umferð riðlakeppninnar á sunnudaginn og gæti Íslandi nægt jafntefli til að komast í átta liða úrslit en með sigri er sætið tryggt. 

Mörk Íslands:

Birgir Már Birgisson 7, Arnar Guðmundsson 5, Sveinn Jóhannsson 5, Orri Þorkelsson 5, Daníel Már Griffin 3, Ágúst Grétarsson 2, Pétur Árni Hauksson 2, Sigþór Jónsson 2,  Sveinn Andri Sveinsson 1, Birgir Jónsson 1, Adam Þorsteinsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert