Efniviðurinn er fyrir hendi hjá ÍR

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR.
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nýliðar ÍR skutu m.a. Gróttu og Fram ref fyrir rass á síðasta keppnistímabili og tryggðu sér sæti í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitilinn.

Að vísu komst liðið ekki upp úr 8 liða úrslitum en víst er að liðið veitti þá tilvonandi Íslandsmeisturum ÍBV hörkukeppni í tveimur leikjum sem einnig verður minnst vegna hörku innan vallar og stóryrða utan vallar í leikslok. En ÍR-ingar sýndu í fyrra að þeir geta verið til alls líklegir svo að enginn getur bókað sigur gegn þeim.

Uppistaða liðsins var ungir handknattleiksmenn sem hafa farið upp í gegnum yngri flokka félagsins. ÍR-ingar voru óhræddir að veðja á sína menn í bland við reyndari menn sem valdir voru af kostgæfni og reyndust liðinu vel. Efniviður er nægur enda hefur árum saman verið vel staðið að þjálfun yngri flokka félagsins.

Út úr þessu kom, svo dæmi sé tekið, einn af efnilegri og skemmtilegri leikmönnum deildarinnar á síðasta keppnistímabili, Sveinn Andri Sveinsson, nú 19 ára gamall, framúrskarandi leikstjórnandi og harðskeyttur varnarmaður en agaður. Sveinn Andri er einn þeirra leikmanna sem áhugamenn um handknattleik eiga að gefa góðar gætur á keppnistímabilinu.

Alls tefldi ÍR-liðið fram 28 leikmönnum í leikjunum 22 í deildinni. Bjarni Fritzson þjálfari vann að klókindum fyrir leiktíðina og þegar af stað var komið. Hann heldur starfi sínu áfram og víst er að sálfræðingurinn á eftir að leika á tilfinningar leikmanna sinna og andstæðinganna.

Sturla Ásgeirsson, fyrrverandi landsliðsmaður [einn silfurdrengjanna frá ÓL í Peking] var leiðtoginn innan vallar.

Síðasta tímabil skilaði leikmönnum ÍR reynslunni sem mun örugglega nýtast þeim vel í vetur, ekki síst í vígi liðsins í íþróttahúsinu í Austurbergi.

Sjá alla grein­ina um ÍR og fleiri lið Olís-deild karla í hand­knatt­leik í íþrótta­blaði Morg­un­blaðsins í dag.