Vignir er hættur með landsliðinu

Vignir Svavarsson fagnar marki í landsleik við Dani.
Vignir Svavarsson fagnar marki í landsleik við Dani. mbl.is/Golli

Vignir Svavarsson hefur ákveðið að gefa ekki oftar kost á sér í íslenska landsliðið í handknattleik. Það kom fram í máli Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, landsliðsþjálfara í handknattleik karla, þegar hann tilkynnti í dag um landsliðshópinn sem teflt verður fram á móti Grikkjum og Tyrkjum í undankeppni Evrópumótsins síðar í þessum mánuði.

Vignir lék sína síðustu landsleiki í vor gegn Litháen í umspili um HM-sæti. Eins var hann með í leikjum Íslands á Noregsmótinu. Hann á að baki 239 A-landsleiki á nærri 20 árum. Hann var m.a. í bronsliðinu á EM 2010 og tók þátt í Ólympíuleikunum 2012 en alls var Vignir með í á annan tug stórmóta með landsliðinu. Hann leikur nú með dönsku bikarmeisturunum Team Tvis Holstebro.

mbl.is