KA náði stigi gegn toppliðinu

Heimir Örn Árnason, KA, í bikarleik liðanna í fyrra.
Heimir Örn Árnason, KA, í bikarleik liðanna í fyrra. Ljósmynd/Thorir O. Tryggvason.

KA gerði góða ferð á Selfoss í dag þar sem liðið náði 27:27 jafntefli gegn toppliðinu í Olísdeild karla í handbolta. 

KA menn voru sterkari í fyrri hálfleik, og slógu Selfyssinga út af laginu með góðum varnarleik. Tarik Kasumovic fór mikinn í liði gestanna og Selfyssingum gekk ekkert að stöðva hann og staðan var 10:13 í leikhléi.

Það var allt annað að sjá til Selfyssinga í upphafi síðari hálfleiks og eftir 11 mínútna leik komust þeir yfir, 17:16. Þeir vínrauðu létu kné fylgja kviði og náðu mest þriggja marka forskoti þegar tíu mínútur voru eftir, 23:20.

Gestirnir frá Akureyri voru hins vegar ekki hættir og náðu að halda stemmningunni með nokkrum góðum augnablikum, stolnum bolta og marki frá Degi Gautasyni og góðri vörslu frá Jovan Kukobat. Þetta gaf KA vind í seglin á meðan Selfyssingar fóru illa að ráði sínu í sókninni.

Kasumovic náði að jafna metin, 27:27, þegar fjórar sekúndur voru eftir og þar við sat en Selfyssingar vildu fá víti og rautt á Jón Heiðar Sigurðsson sem stöðvaði hraða miðju Selfoss í kjölfarið. Dómararnir dæmdu ekki neitt og leiktíminn rann út.

Árni Steinn Steinþórsson var markahæstur Selfyssinga með 7/3 mörk og Haukur Þrastarson skoraði 6. Pawel Kiepulski varði 12 skot í marki Selfoss.  Hjá KA var Áki Egilsnes með 9/3 mörk og Tarik Kasumovic 8. Jovan Kukobat varði 10 skot í marki KA.

Selfoss 27:27 KA opna loka
60. mín. Leik lokið KA menn fagna ógurlega. Gott stig fyrir þá. Selfyssingar svekktir.
mbl.is