Ragnar mikilvægur í sigri Hüttenberg

Ragnar Jóhannsson og félagar sigla lygnan sjó í 11. sæti …
Ragnar Jóhannsson og félagar sigla lygnan sjó í 11. sæti af 20 liðum í 2. deild. Ljósmynd/Mark Thürmer

Ragnar Jóhannsson skoraði fimm mörk og var einn þriggja markahæstu leikmanna Hüttenberg þegar liðið vann sterkan sigur á Ferndorf, 26:25, í þýsku 2. deildinni í handbolta í kvöld.

Ferndorf er í 3. sæti deildarinnar en Hüttenberg er um miðja deild, eftir sigurinn í 11. sæti með 11 stig úr 12 leikjum.

Oddur Gretarsson skoraði eitt marka Balingen sem vann Dormagen á útivelli, 27:25, og jafnaði þar með Ferndorf að stigum í 3.-4. sæti. Liðin hafa 17 stig, tveimur stigum minna en Coburg og Essen sem eru efst.

Sigtryggur Daði Rúnarsson var ekki á meðal markaskorara Lübeck-Schwartau sem tapaði 27:23 fyrir Wilhelmshavener á útivelli. Lübeck-Schwartau er í 8. sæti með 14 stig.

Hamburg saknar enn Arons Rafns Eðvarðssonar sem er frá keppni eftir að hafa fengið botnlangabólgu. Liðið tapaði fyrir Emsdetten á útivelli, 30:29, og er í 10. sæti með 12 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert