Frakkar komnir í góð mál á EM

Frakkar fagna sigrinum í kvöld.
Frakkar fagna sigrinum í kvöld. AFP

Heimsmeistarar Frakklands unnu öruggan 29:23-sigur á Danmörku í fyrsta leiknum í milliriðli 1 á Evrópumóti kvenna í handbolta í kvöld.

Frakkar eru á heimavelli á mótinu. Liðið er með fjögur stig eftir að hafa einnig unnið Svartfjallaland en tapað fyrir Rússlandi fyrr í mótinu. Danmörk er með tvö stig og í erfiðri stöðu í baráttu um sæti í undanúrslitum.

Frakkar voru 17:11 yfir í hálfleik gegn Dönum í dag og hljóp aldrei nein spenna í leikinn í seinni hálfleiknum. Estelle Nze Minko var markahæst hjá Frakklandi með 6 mörk úr jafnmörgum tilraunum, en þær Grace Zaadi og Allison Pineau komu næstar með 4 mörk hvor. Hjá Danmörku var Fie Woller markahæst með 5 mörk.

Frakkland mætir Svíþjóð á laugardaginn og á svo leik við Serbíu í lokaumferð milliriðilsins. Danmörk mætir Rússlandi 10. desember og svo Svartfjallalandi í lokaumferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert