Stjórnlaust rekald berst að feigðarósi

Gróttumaðurinn Vilhjálmur Geir Hauksson sækir að vörn Aftureldingar.
Gróttumaðurinn Vilhjálmur Geir Hauksson sækir að vörn Aftureldingar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Óhætt er að segja að síðasta umferð Olís-deildarinnar á árinu hafi verið tíðindarík þótt e.t.v. vilji menn muna misvel eftir henni þegar frá líður.

Leikmenn Gróttu skráðu sig í sögubækurnar með slakasta árangri sem náðst hefur við sóknarleik í kappleik í efstu deild í meira en hálfa öld. Sennilega er þeim hollara að leggja leikinn á minnið en að reyna að gleyma honum því frammistaða þeirra, að markverðinum Hreiðari Levy Guðmundssyni undanskildum, var átakanlega léleg á köflum.

Grótta skoraði aðeins níu mörk í leiknum við Val. Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær hefur lið ekki skorað færri mörk í kappleik í efstu deild Íslandsmóts karla í 51 ár.

Ógnarsterkur varnarleikur Vals og afbragðsmarkvarsla er ekki afsökun fyrir frammistöðu Gróttuliðsins í leiknum. Slík afsökun er blekking. Öll vötn hafa fallið til Dýrafjarðar á undanförnum vikum hjá Gróttumönnum eins og m.a. kom fram í pistli mínum eftir 12. umferð. Engu er líkara en Gróttuliðið sé eins og stjórnlaust rekald. Frammistaða þess í leiknum og í undanförnum leikjum hefur bent til þess. Hún er óboðleg fyrir lið í efstu deild, ekki síst á sama tíma og menn keppast við að hæla leikjum deildarkeppninnar og hlaða leikmenn og þjálfara liðanna lofi.

Sumir taka jafnvel svo djúpt í árinni að þeir hafi aldrei séð þvílíkan gæða-handknattleik leikinn í deildarkeppni hér á landi og um þessar mundir. Meðan siglir metnaðar-, og lánlaust lið eins og Grótta að feigðarósi. Ég trúi því og treysti að Gróttumenn taki til í sínum ranni á næstu vikum áður en deildarkeppnin hefst fyrir alvöru, svo vitnað sé í sérfræðing einn sem virðist telja þær 13 umferðir sem eru að baki næsta marklausar.

Sjá alla greinina og úrvalslið 13. umferðar í Olís-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert