Mariam öflug gegn toppliðinu

Mariam Eradze, til vinstri, í leik með 20 ára landsliði ...
Mariam Eradze, til vinstri, í leik með 20 ára landsliði Íslands.

Mariam Eradze, leikmaður íslenska 20 ára landsliðsins í handknattleik kvenna, átti mjög góðan leik í frönsku A-deildinni í kvöld þegar lið hennar, Toulon, tók á móti toppliðinu Metz.

Mariam var markahæst í liði Toulon með 6 mörk úr aðeins sjö skotum, en þar af gerði hún fjögur mörk í síðari hálfleik. Litlu munaði að Toulon yrði fyrst til að ná stigi af Metz í vetur en toppliðið knúði fram sigur, 22:21. Metz er með fullt hús stiga en Toulon er í níunda sæti af tólf liðum. Átta efstu liðin komast í úrslitakeppnina um meistaratitilinn.

Landsliðskonan Rut Jónsdóttir var líka á ferðinni í kvöld en hún er smám saman að koma inn í lið Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni eftir langa fjarveru vegna barnsburðar og meiðsla. Hún skoraði eitt mark í stórsigri Esbjerg á Viborg, 32:22.

mbl.is