Geggjuð tilfinning

Leikmenn Vals fagna sigri í bikarkeppninni í dag, Coca Cola-bikarnum. …
Leikmenn Vals fagna sigri í bikarkeppninni í dag, Coca Cola-bikarnum. Díana Dögg er önnur frá hægri. mbl.is/Hari

„Bæði liðin léku sterka vörn en við fundum fleiri glufur á vörn Fram og nýttum líka færin okkar,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir, nýkrýndur bikarmeistari í handknattleik í samtali við mbl.is í dag eftir að Valur varð bikarmeistari í handknattleik kvenna að loknum öruggum sigri á Fram í úrslitaleik í Laugardalshöll, 24:21.

„Eins náðum við að nýta vel seinni bylgjuna. Það gekk flest upp hjá okkur og þess vegna stöndum við uppi sem sigurvegarar. Loksins vinnum við Fram og náum að svara aðeins fyrir tapið fyrir liðinu i úrslitum Íslandsmótsins síðasta vor,“ sagði Díana Dögg sem átti framúrskarandi leik, ekki síst í vörninni.  „Það kom hreinlega ekki til greina að tapa aftur.“

Upphafskafli síðari hálfleiks var afar öflugur af hálfu Vals þegar liðið sleit sig frá Fram-liðinu og náði mest átta marka forskoti. Díana segir að ákveðni hafi skinið úr hverju andliti leikmanna Vals þegar þeir gengu til leiks í síðari hálfleik. „Við ætluðum okkur að vinna leikinn, sama hvort það yrði á fyrstu mínútum eða ef við lentum undir. Það kom aldrei til greina  að gefast upp. Við vildum gefa allt sem við áttum. Við hreinlega sprengdum okkur eins og maður á að gera í svona leikjum,“ sagði Díana Dögg sem vann nú bikarkeppnina í fyrsta sinn á ferlinum en fyrsti stóri titilinn sem hún tók þátt í að vinna í meistaraflokki var deildarmeistaratitilinn í Olís-deildinni fyrir nærri ári.

„Kannski slökuðum við aðeins og mikið á lokin, að minnsta kosti fyrir minn smekk. En við unnum og það skiptir öllum máli þegar upp er staðið. Það er geggjað að vera í sigurliði og tilfinningin sem fer um er hreinlega geggjuð,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir, bikarmeistari í handknattleik með Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert