Sætasti sigurinn var með æskuvinkonunum

Íris Björk Símonardóttir, markvörður Vals.
Íris Björk Símonardóttir, markvörður Vals. mbl.is/Hari

„Það er alltaf extra sætt að vinna keppni á svona stórum vettvangi með mörgum áhorfendum og í mikilli stemningu,“ sagði Íris Björk Símonardóttir, markvörður nýkrýndra bikarmeistara Vals í handknattleik, í gær. Íris Björk vann það afrek á laugardaginn að verða bikarmeistari með þriðja félaginu.

Íris Björk vann bikarkeppnina með Fram tvö ár í röð, 2010 og 2011 og með uppeldisfélagi sínu, Gróttu, 2015. Í öll skiptin hefur hún verið aðalmarkvörður sinna liða. Þegar litið er yfir frásagnir af sigurleikjunum 2010, 2011 og 2015 er ljóst að Íris Björk hefur alltaf náð að töfra fram sitt besta þegar mestu hefur skipt. Eins var á laugardaginn þegar Valur vann Fram í úrslitaleik, 24:21.

„Í úrslitaleiknum gekk eiginlega allt upp hjá okkur, jafnt í vörn sem sókn. Við náðum loksins heilsteyptum leik,“ sagði Íris Björk sem vill sem minnst gera úr eigin frammistöðu í leiknum á laugardaginn. „Liðsheildin var frábær og allar skiluðum við okkar í leikinn. Þess þarf til að vinna jafn gott lið og Framarar hafa á að skipa.“

Með æskuvinkonum

Íris Björk segir að hver sigurstund eigi sínar minningar en sigurinn með Gróttu fyrir fjórum árum skipi ákveðinn sess í sínum huga. „Þá vann ég bikarinn með uppeldisfélaginu, í hóp þar sem við vorum saman nokkrar æskuvinkonur að vinna fyrsta bikarmeistaratitil Gróttu í handbolta. Allir bæjarbúar á Seltjarnarnesi voru með, maðurinn minn, Arnar Þorkelsson, var formaður á þessum tíma auk sem Kári Garðarsson, þjálfari liðsins, var og er vinur okkar hjóna. Það var einhvern veginn allt svo sætt og eftirminnilegt við sigurinn 2015,“ sagði Íris Björk sem varð einnig Íslandsmeistari með Gróttu vorið 2015 og á ný árið eftir áður en hún tók sé frí frá æfingum og keppni sumarið 2016.

Sjá allt viðtalið við Írisi í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert