Þekki tilfinninguna og hún er viðbjóðsleg

Orri Freyr Gíslason er harður í horn að taka.
Orri Freyr Gíslason er harður í horn að taka. mbl.is/Árni Sæberg

Línu- og varnarmaðurinn sterki Orri Freyr Gíslason, er spenntur fyrir komandi einvígi Vals og Aftureldingar í átta liða úrslitum Íslandsmótsins í handbolta, sem fer af stað á morgun. Orri og liðsfélagar hans í Val, fengu aðeins eitt stig á móti Aftureldingu í deildarkeppninni í vetur. 

„Við þurfum að gera það sama og við gerðum á móti þeim í seinni hálfleik í fyrsta leiknum. Við erum þannig lið að við verðum að spila vörn og svo erum við með einn geggjaðan fyrir aftan okkur og hann heitir Daníel. Ef þetta tvennt smellur, þá kemur hitt," sagði Orri aðspurður að því hver lykilinn að því að leggja Aftureldingu af velli væri. 

Hann segir Mosfellinga spila skynsaman sóknarleik og að menn séu æstir í vörn. „Þeir eru skynsamir og svolítið eins og við vorum fyrir áramót. Þeir skjóta ekki endilega úr fyrsta færinu sem þeir fá í hverri sókn.

Þeir spila boltanum mikið og láta hann ganga og reyna að velja allra síðasta færið í hverri sókn. Þeir eru svo með nokkra geðsjúklinga í vörninni. Þegar þeir hitta á góðan leik þá er erfitt að stoppa þá. Það vita allir hvaða geðsjúklinga ég á við," sagði Orri og hló. 

Magnús Óli Magnússon og Agnar Smári Jónsson, tveir bestu sóknarmenn Vals, verða ekki með í úrslitakeppninni vegna meiðsla, en hvar ætlar Valur að fá mörk í þeirra fjarveru? 

„Þau koma einhvers staðar. Skorið minnkar kannski aðeins en þá fáum við bara Danna og vörnina í gang. Þá vinnum við leikina öðruvísi. Ég, Ýmir og Alex erum klárir í hvaða slag sem er í vörninni," sagði Orri. Hann segir Valsara staðráðna í að gera betur en í fyrra, er liðið datt út í átta liða úrslitum gegn Haukum, árið eftir að Valur varð Íslandsmeistari. 

„Við urðum Íslandsmeistarar og duttum svo út í átta liða úrslitum. Það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni. Ég þekki þessa tilfinningu og hún er viðbjóðsleg," sagði Orri Freyr. 

mbl.is