Væri alveg til í að upplifa það aftur

Lovísa Thompson í baráttu við Steinunni Björnsdóttir og Hildi Þorgeirsdóttur.
Lovísa Thompson í baráttu við Steinunni Björnsdóttir og Hildi Þorgeirsdóttur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrslitaeinvígi Vals og Fram um Íslandsmeistaratitilinn í Olís-deild kvenna í handknattleik hefst í Origo-höllinni á Hlíðarenda í kvöld.

Fram er ríkjandi Íslandsmeistari en Valur varð deildarmeistari og vann Fram í úrslitaleik Coca Cola-bikarkeppninnar.

Mbl.is tók púlsinn á Lovísu Thompson sem hefur verið í stóru hlutverki með Valsliðinu á leiktíðinni en hún gekk í raðir Hlíðarendaliðsins frá Gróttu fyrir tímabilið. Lovísa varð markahæst í Valsliðinu í deildarkeppninni og skoraði 107 mörk í 21 leik með liðinu. Þá fór hún á kostum í bikarúrslitaleiknum þar sem hún skoraði 9 mörk og átti stóran þátt í að bikarinn fór á Hlíðarenda.

„Það er mikil tilhlökkun að þetta sé að byrja og það verður gaman að taka þátt í þessu úrslitaeinvígi. Við höfum undirbúið okkur vel fyrir þessa leiki á móti Fram og það er klárt mál að bestu lið landsins berjast um Íslandsmeistaratitilinn,“ sagði Lovísa í samtali við mbl.is.

„Þetta eru tvö jöfn og sterk lið. Fram-liðið er með mikla reynslu og með landsliðsmenn í flestum stöðum en útlínan hjá okkur er ung að árum og það er ekki sama reynslan. Þó svo að við höfum unnið Fram í úrslitaleik bikarsins og orðið deildarmeistarar þá má segja að Fram hafi haft gott tak á okkur á tímabilinu.

Fram vann alla þrjá deildarleikna á móti okkur en núna ætlum við að snúa þessu við og stefnan er að vinna þriðja titilinn á tímabilinu. Ég varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari með Gróttu og þekki vel þá tilfinningu að vinna titilinn. Ég væri alveg til í að upplifa það aftur,“ sagði Lovísa og bætti því við að allir leikmenn Vals séu heilir heilsu og klárir í slaginn.

Flautað verður til leiks í Orio-höllinni klukkan 19.30 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert