Arnar Freyr seldur frá Danmörku

Arnar Freyr Arnarsson er væntanlega á leið til Melsungen í …
Arnar Freyr Arnarsson er væntanlega á leið til Melsungen í Þýskalandi. AFP

Arnar Freyr Arnarsson, línumaður og landsliðsmaður í handbolta, mun næsta sumar yfirgefa GOG í Danmörku eftir að hafa þá verið hjá félaginu í eitt ár.

Arnar Freyr kom til GOG frá Kristianstad í Svíþjóð í sumar en strax í byrjun september hafði TV 2 í Danmörku það eftir heimildum að þýska félagið Melsungen hefði tryggt sér krafta Arnars frá og með næsta sumri.

Nú hefur GOG staðfest það á heimasíðu sinni að Arnar Freyr hafi verið seldur, en samningur hans við félagið átti að renna út 2021. Þar segir að vissulega sé leitt að sjá strax á eftir Arnari en GOG hafi fengið góða summu fyrir leikmanninn. GOG greinir ekki frá því hvaða félag keypti Arnar en segir aðeins að um félag utan Danmerkur sé að ræða.

mbl.is