Skildu með skiptan hlut

Einar Ingi Hrafnsson sækir að marki ÍR í dag.
Einar Ingi Hrafnsson sækir að marki ÍR í dag. mbl.is/Hari

Liðin í öðrum og þriðja sæti Olís-deildar karla, Afturelding og ÍR, skildu jöfn, 31:31, í tíundu umferð deildarinnar að Varmá í kvöld. Afturelding var einu marki yfir í hálfleik, 17:16. Aftureldingar þar með með áfram í öðru sæti deildarinnar, hefur nú 15 stig og er stigi á eftir Haukum sem tróna á toppnum. ÍR situr í þriðja sæti með 13 stig.

Aftureldingarliðið var sterkari aðilinn allan fyrri hálfleikinn. Framan af gekk Mosfellingum flest í haginn. Sóknarleikurinn var lipur og skilaði marki nánast í hverri sókn. Arnór Freyr Stefánsson, markvörður, varði vel sem lagði grunn að þriggja til fjögurra marka forskot Aftureldingar lengst af. ÍR-ingar komust betur inn í leikinn þegar á leið og voru þeir aðeins einu marki undir í hálfleik, 17:16.

Eins og í fyrri hálfleik þá fór Aftureldingarliðið mun betur af stað í upphafi síðari hálfleiks. Munurinn var fjögur mörk þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum, 23:19. ÍR-inga breyttu aðeins um áherslur í varnarleiknum sem sló vopnin um stund úr höndum Aftureldingarmanna. Aðeins dró saman með liðunum og aðeins var tveggja marka munur, 25:23, þegar leiktíminn í síðari hálfleik var rétt hálfnaður. Skömmu síðar var staðan orðin jöfn, 25:25, og 11 mínútur til leiksloka. Hafþór Már Vignisson kom ÍR-ingum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 26:25,þegar tíu mínútur voru eftir af leiktímanum. Afturelding svaraði með tveimur mörkum og komst yfir. Eftir þetta var jafnt á öllum tölum.

Afturelding var með boltann síðustu mínútuna og þrátt fyrir að taka leikhlé tókst ekki að stilla upp í gott markskot. Leikhléið skilaði a.m.k. ekki miklum sýnilegum árangri. Sigurður Ingiberg Ólafsson varði örvæntingarfullt skot Tuma Steins Rúnarssonar fáeinum sekúndum fyrir leikslok. Tíminn sem eftir var nægði ÍR-ingum ekki til að kreista út sigurmark.

Bikir Benediktsson skoraði 11 mörk fyrir Aftureldingu. Guðmundur Árni Ólafsson var næstu með níu mörk. Arnór Freyr Stefánsson varði 13 skot í marki Aftureldingar, flest í fyrri hálfleik.

Björgvin Þór Hólmgeirsson skoraði 8 mörk fyrir ÍR og Akureyringarnir Bergvin Þór Gíslason og Hafþór Már Vignisson skoruðu sex mörk hvor. Sigurður Ingiberg Ólafsson varði 18 skot í marki ÍR, nokkur afar mikilvæg á lokakaflanum.

Afturelding 31:31 ÍR opna loka
60. mín. Afturelding tekur leikhlé - 22 sekúndur til leiksloka. Afturelding fær ekki langan tíma til að ljúka sókn sinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert