„Munum safna fullt af stigum“

Stefán Árnason og Jónatan Magnússon, þjálfarar KA, ræða málin í …
Stefán Árnason og Jónatan Magnússon, þjálfarar KA, ræða málin í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Stefán Árnason, annar þjálfara KA í Olís-deild karla í handbolta, var nokkuð sáttur með sína menn þrátt fyrir þriggja marka tap KA gegn Aftureldingu í dag. KA var inni í leiknum allan tímann en sterkur lokakafli Aftureldingar skildi liðin. Afturelding vann leikinn 28:25 en KA leiddi 23:22 þegar fimm mínútur lifðu.

Enn tapið þið fyrir Aftureldingu í jöfnum leik og þeir ná að kreista fram sigur í restina.

„Við ætluðum að vinna þá í þessum leik og vorum bara staðráðnir í því. Lengsta af í leiknum þá spiluðum við þannig, spiluðum hreinlega til sigurs. Við vorum komnir í fína stöðu þegar tíu mínútur voru eftir og líka þegar stutt var eftir. Þeir kláruðu hins vegar dæmið á síðustu tíu mínútunum. Þá hættu þeir að spila sjö á sex og ég held bara að þeir hafi skorað úr öllum skotunum sínum eftir það. Þá náðum við ekki að stoppa þá og fengum enga markvörslu. Það gerði út um þetta. Við fengum of mikið af mörkum á okkur síðustu tíu mínúturnar. Mér fannst við annars spila frábærlega. Strákarnir geta verið stoltir af því sem þeir lögðu í leikinn.“

Afturelding er með svakalega sterkt lið.

„Það er alveg ljóst. Við hefðum þurft eitthvað extra til að vinna þá. Þeir hafa verið frábærir í vetur. Því var vitað mál að þetta yrði erfitt. Mér fannst strákarnir sýna að þeir ætluðu sér sigur. Við vorum lentir í slæmri stöðu í byrjun seinni hálfleiks, komnir fimm mörkum undir. Við leystum það sem þeir voru að gera og komum okkur inn í leikinn á ný. Við vorum hreinlega búnir að snúa leiknum en það vantaði eitthvað örlítið þarna í lokin til að ná í stigin.“

Stemningin var orðin svakaleg í liðinu og á pöllunum. Þið komust yfir og Jovan varði víti.

„Mér fannst allt með okkur fyrir lokakaflann. Ég var alveg sannfærður um að við myndum sigla þessu heim, tilfinningin var þannig. En við náðum bara ekki að stoppa þá og um  leið og ein sókn klikkaði hjá okkur þá vorum við aftur farnir að elta þá. Það sem stendur samt eftir er að við vorum að spila frábæra vörn lengstum, það var samheldni í liðinu og við sýndum karakter. Ég er alveg sannfærður að með svona spilamennsku þá munum við safna fullt af stigum. Það er stutt í næstu stig því þetta er spilamennska sem við viljum standa fyrir“ sagði Stefán brattur

mbl.is