Þriðji sigurinn hjá Þóri

Þórir Hergeirsson
Þórir Hergeirsson AFP

Þórir Hergeirsson og hans konur í norska landsliðinu eiga glimrandi góðu gengi að fagna á HM í handknattleik í Japan. Liðið hefur unnið fyrstu þrjá leiki sína í keppninni. 

Noregur vann Serbíu 28:25 eftir nokkuð jafnan leik en Serbarnir náðu tveggja marka forskoti í fyrri hálfleik. Norska liðið virðist vera til alls líklegt í keppninni en liðið á enn eftir að mæta Hollandi í riðlakeppninni og þá fæst enn betri mynd á styrk liðsins. 

Liðin voru taplaus fyrir leikinn í dag en þær norsku eru nú með 6 stig en Serbía 4 stig. Holland er komið með 4 stig einnig. Angóla og Slóvenía eru með 2 stig en Kúba er án stiga. 

Leikstjórnandinn Stine Bredal Oftedal var valin kona leiksins. 

Þjóðverjar unnu Dani, 26:25, í æsispennandi lykilleik í B-riðlinum. Þýskaland er nú með 6 stig, Suður-Kórea 5, Frakkland 3 og Danmörk 3 stig en þarna er hörð barátta um þrjú efstu sætin sem gefa keppnisrétt í milliriðli. Brasilía er með eitt stig og Ástralía ekkert.

Svíar sigruðu Japani örugglega, 34:26, í D-riðli. Rússland og Svíþjóð eru með 6 stig og fara örugglega áfram, Japanir eru með 4 stig, Argentína 2 stig en Kína og Kongó eru án stiga.

mbl.is