Holland í milliriðil eftir stórsigur

Lois Abbingh skoraði sex mörk fyrir Holland í dag.
Lois Abbingh skoraði sex mörk fyrir Holland í dag. Ljósmynd/IHF

Holland vann 36:23-stórsigur á Serbíu í fjórða leik liðanna á HM kvenna í handbolta í Japan í dag. Með sigrinum tryggðu Hollendingar sér sæti í milliriðil en Serbía þarf að vinna Slóveníu á morgun til að fylgja þeim þangað. 

Holland var með forskotið allan tímann og var staðan í hálfleik 20:12, Hollandi í vil. Estavana Polman var markahæst í hollenska liðinu með átta mörk og þær Lois Abbingh og Kelly Dulfer skoruðu sex mörk hvor. 

Holland mætir lærimeyjum Þóris Hergeirssonar í síðasta leik sínum í riðlakeppninni á morgun og getur með sigri tryggt sér toppsæti riðilsins. 

Rússar eru með fullt hús stiga í D-riðli eftir 33:23-sigur á heimakonum í Japan. Staðan í hálfleik var 16:16 en rússneska liðið var mikið sterkara í seinni hálfleik. Anna Sen skoraði átta mörk fyrir Rússland. Rússar mæta Svíum á morgun og verður toppsæti riðilsins að öllum líkindum undir. 

Fyrr í dag vann Slóvenía afar öruggan sigur á Kúbu, 39:26 og Austur-Kongó hafði betur gegn Kína, 25:24. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert