Holland í góðri stöðu — Spánverjar steinlágu

Hollendingar fagna sigrinum í leikslok gegn Suður-Kóreu í morgun.
Hollendingar fagna sigrinum í leikslok gegn Suður-Kóreu í morgun. AFP

Hollendingar eiga góða möguleika á sæti í undanúrslitum heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik eftir sannfærandi sigur á Suður-Kóreu í morgun og staða Spánverja er tvísýn eftir að þeir steinlágu fyrir Rússum.

Holland vann Suður-Kóreu 40:33 eftir að staðan var 23:16 í hálfleik og munurinn var um tíma tíu mörk. Lois Abbingh skoraði 11 mörk fyrir Holland og Estavana Polman 7 en Eun Hee Ryu skoraði 9 mörk fyrir Suður-Kóreu.

Holland er með 6 stig og hefur lokið sínum leikjum. Noregur er með 6 stig, Þýskaland 5, Serbía 4, Danmörk 3 og Suður-Kórea 2 stig. Serbía og Danmörk mætast klukkan níu og Noregur og Þýskaland mætast í lokaleik milliriðilsins klukkan 11.30 og þá ræðst endanlega hvaða tvö lið fara í undanúrslitin.

Rússar hafa einir unnið alla sína leiki á mótinu og þeir rúlluðu yfir Spánverja, 36:26, eftir að staðan var 16:12 í hálfleik. Jaroslava Frolova skoraði 9 mörk fyrir Rússa sem með þessu unnu riðilinn og mæta liðinu sem verður í öðru sæti í riðli eitt. Ljóst er að komist Hollendingar áfram munu þeir mæta Rússum. Hjá Spánverjum var Alexandrina Cabral atkvæðamest með 6 mörk.

Stórt tap er afar slæmt fyrir Spánverja sem er í keppni við Svía um annað sætið. Nú nægir Svíum að vinna leik sinn við Svartfellinga klukkan 11.30 til að ná öðru sætinu og fara í undanúrslitin. Rússland er með 10 stig, Spánn 7, Svíþjóð 5 og Svartfjallaland 4 stig en Japan og Rúmenía eru án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert