Gísli Þorgeir kominn í nýtt félag

Gísli Þorgeir Kristjánsson skrifaði undir samning við Magdeburg sem gildir …
Gísli Þorgeir Kristjánsson skrifaði undir samning við Magdeburg sem gildir út leiktíðina. Ljósmynd/@SCMagdeburg

Handknattleikskappinn Gísli Þorgeir Kristjánsson er genginn til liðs við þýska félagið Magdeburg en félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni í dag. Gísli skrifaði undir samning við 1. deildarliðið sem gildir út tímabilið en leikmaðurinn er að jafna sig á axlarmeiðslum og er ekki leikfær eins og staðan er í dag.

Þýska 1. deildarfélagið Kiel sagði óvænt um samningi sínum við leikmanninn fyrr í þessum mánuði og hefur Gísli því verið án félags síðan. Tomas Svensson, markmannsþjálfari íslenska karlalandsliðsins, er aðstoðarþjálfari Magdeburg og hann þekkir því vel til Gísla sem hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið undanfarin ár.

Ómar Ingi Magnússon, leikmaður Aalborg í Danmörku, mun ganga til liðs við Magdeburg næsta sumar og gætu því hann og Gísli orðið liðsfélagar á næstu leiktíð. Magdeburg er sem stendur í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig, tveimur stigum minna en topplið Kiel, eftir tuttugu umferðir.

Gísli Þorgeir fetar þar með í fótspor þeirra Arnórs Atlasonar, Ólafs Stefánsson og Sigfúsar Sigurðssonar sem allir léku með Magdeburg á sínum ferli. Þá þjálfuðu þeir Alfreð Gíslason sem og Geir Sveinsson liðið, Alfreð frá 1999 til ársins 2006, og Geir frá 2014 til 2015.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert