Noregur eina von Valsmanna um stutt ferðalag

Valsmenn fagna sigrinum gegn Beykoz í Tyrklandi í dag.
Valsmenn fagna sigrinum gegn Beykoz í Tyrklandi í dag. Ljósmynd/Baldur Þorgilsson

Miklar líkur eru á því að Valsmenn þurfi aftur að fara í langt ferðalag í Áskorendabikar Evrópu eftir að hafa tryggt sér sæti í átta liða úrslitunum með tveimur sigrum gegn Beykoz í Tyrklandi um helgina.

Norska liðið Halden er eina liðið auk Valsmanna frá vesturhluta Evrópu í átta liða úrslitum keppninnar. Halden gerði mjög vel í dag með því að vinna rússneska liðið Neva á útivelli í Pétursborg, 23:21, eftir að hafa tapað heimaleiknum 23:24 viku áður.

Drammen frá Noregi átti góða möguleika á að fara áfram eftir naumt tap gegn AEK í Grikklandi, 33:31, en tókst aðeins að gera jafntefli við Grikkina á heimavelli í dag, 27:27. Óskar Ólafsson skoraði tvö marka Drammen sem er úr leik.

Auk Halden og AEK geta Valsmenn dregist á móti Victor frá Stavropol í Rússlandi, tékknesku liðunum Karviná og Dukla Prag og rúmensku liðunum Potaissa Turda og CSM Búkarest. Dregið verður á þriðjudaginn.

mbl.is