Stundum er gott að fá á baukinn

Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR.
Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Þetta var ekki góður dagur. Við vorum bara lélegir á öllum stöðum. Það var ekkert að frétta,“ sagði svekktur Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, við mbl.is eftir að hans menn steinlágu gegn FH í Olísdeildinni í handbolta í kvöld, 28:39.

ÍR missti Úlf Kjartansson af velli með rautt spjald í fyrri hálfleik og Sveinn Andri Sveinsson lék ekkert með í seinni hálfleik eftir höfuðhögg. 

„Hann fer í kassann á honum og hann lendir illa. Þeir setja rautt á það. Hann var búinn að standa sig vel í vörninni og kom með drifkraft í þetta, svo það var slæmt að missa hann út. Að sama skapi var vont að missa Svein Andra.

Við erum með fullt af leikmönnum og það á ekki að koma að sök, en auðvitað er leiðinlegt þegar menn meiðast. Sveinn fékk höfuðhögg þegar Úlfur fékk rautt og hann var ekki klár inn á aftur. 

ÍR tapaði illa gegn Fram í síðustu umferð og aftur gegn FH í kvöld. Er ekki slæmur tími að hiksta undir lok tímabils? 

„Ég veit það ekki. Ég þarf aðeins að hugsa þetta. Kannski er þetta frábær tími til að hiksta. Kannski er þetta akkúrat tíminn til að vera að hiksta núna. Það á eftir að koma í ljós. Stundum er gott að fá á baukinn. Ég er spenntur að sjá hvaða svar við bjóðum upp á,“ sagði Bjarni. 

Næstu tveir leikir ÍR eru gegn ÍBV og Val, tveimur af heitustu liðum landsins í dag. Bjarni hefur ekki áhyggjur af erfiðum næstu leikjum. 

„Mér finnst það ekki. Það er langskemmtilegast að spila við bestu liðin, það hlýtur að vera. Ég myndi frekar segja að við værum að fara í mjög spennandi prógram,“ sagði Bjarni. 

mbl.is