Kemur Guðmundur með sína menn á Hlíðarenda?

Guðmundur Guðmundsson þjálfar Melsungen sem fer í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar …
Guðmundur Guðmundsson þjálfar Melsungen sem fer í fyrstu umferð Evrópudeildarinnar eins og Valsmenn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Karlalið Vals í handknattleik byrjar keppnistímabilið strax í lok ágúst en Evrópska handknattleikssambandið, EHF, gaf út í dag að fyrsta umferðin í nýju Evrópudeildinni, þar sem Valsmenn verða meðal þátttökuliða, hefjist strax í síðustu viku ágústmánaðar.

Valsmenn eru eitt af þrjátíu liðum sem fara í 1. umferðina. Níu lið sitja hjá og fara beint í 2. umferð þar sem leikið verður um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar, en þar hafa tólf lið þegar fengið sæti.

Síðar í vikunni verður raðað í styrkleikaflokka fyrir fyrstu umferðina en dregið verður til hennar í næstu viku, þriðjudaginn 28. júlí.

Meðal mögulegra mótherja Vals eru dönsku liðin Bjerringbro-Silkeborg, Skjern og Holstebro sen eru öll með íslenska leikmenn innanborðs, þýska liðið Melsungen sem Guðmundur Þ. Guðmundsson þjálfar og Arnar Freyr Arnarsson leikur með, Kristianstad og Malmö frá Svíþjóð, en með Kristianstad leika Ólafur Guðmundsson og Teitur Einarsson, og norsku liðin Arendal og Haslum, auk fjölda sterkra liða annars staðar úr Evrópu.

Önnur íslensk lið hefja ekki leik í Evrópumótunum fyrr en í október eða nóvember. FH og Afturelding eru í nýja Evrópubikarnum hjá EHF þar sem FH situr hjá í fyrstu umferðinni og í nýjum Evrópubikar kvenna eru Valur og KA/Þór meðal þátttökuliða en lið KA/Þórs situr hjá í fyrstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert