ÍBV lagði Fram í fyrsta skipti síðan 2018

Lina Cardell skýtur að marki Fram. Sara Sif Helgadóttir er …
Lina Cardell skýtur að marki Fram. Sara Sif Helgadóttir er til varnar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Eyjakonur unnu frábæran sigur á Fram þegar liðin áttust við í Olísdeild kvenna í handbolta í Vestmannaeyjum í dag, Fram hafði unnið síðustu níu viðureignir liðanna fyrir leikinn í dag en honum lauk 26:24. Fram missir því toppsætið til KA/Þórs sem gerði jafntefli við Hauka fyrr í dag.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var frábær í liði ÍBV og skoraði átta mörk og þar af markið sem tryggði sigurinn á lokasekúndunum. Engum leikmanni var vikið af velli með tveggja mínútna brottvísun og spiluðu liðin því fullmönnuð allan leikinn.

ÍBV fór betur af stað í leiknum og komust þær fljótt fjórum mörkum yfir, Framkonur eru ekkert lamb að leika sér við og tóku við sér fljótlega. Leikurinn var í járnum undir lok fyrri hálfleiks og ómögulegt að segja til um hvort liðið myndi klára leikinn. Staðan var 12:11 í hálfleik fyrir heimakonum en Framarar byrjuðu seinni hálfleikinn frábærlega.

Fram skoraði fyrstu fjögur mörk seinni hálfleiks og héldu eflaust margir að það væri einungis formsatriði að klára leikinn. Sú varð alls ekki raunin þar sem Eyjakonur voru fljótar að jafna metin á ný og voru að sigla fram úr um miðbik seinni hálfleiks.

Þrátt fyrir að vera með tveggja eða þriggja marka forskot voru leikmenn ÍBV aldrei í rónni enda Framliðið virkilega sterkt. Eyjakonur hægðu vel á leiknum og reyndu að drepa niður hraðann í Framliðinu. Það gekk ágætlega en ÍBV töpuðu boltanum ekki mikið til Framara án þess að koma skoti á markið.

Leikurinn var ótrúlegur þó fyrir þær sakir að engin tveggja mínútna brottvísun leit dagsins ljós, sem verður að teljast ótrúlegt í hörkuleik sem þessum. Oft á tíðum fengu leikmenn hrindingar en línan hélt þó út allan leikinn og verður að hrósa dómurum leiksins fyrir það.

Hrafnhildur Hanna kórónaði leik sinn með góðu marki undir lokin sem tryggði sigurinn, hennar áttunda mark í leiknum.

Eyjakonur tileinkuðu Gunnari Karli Haraldssyni, ungum Eyjamanni, sem féll frá síðastliðinn sunnudag, sigurinn. Gunnar var mikill stuðningsmaður ÍBV og léku leikmenn með sorgarbönd til minningar um hann.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

ÍBV 26:24 Fram opna loka
60. mín. Fram tapar boltanum 20 sekúndur eftir.
mbl.is