Þakklátur leikmönnum landsliðsins

Róbert Geir Gíslason til vinstri, á blaðamannafundi íslenska karlalandsliðsins.
Róbert Geir Gíslason til vinstri, á blaðamannafundi íslenska karlalandsliðsins. Kristinn Magnúsosn,Kristinn Magnússon

„Ferðalagið gekk mjög vel og það er ekki yfir neinu að kvarta,“ sagði Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, í samtali við mbl.is í dag.

Róbert er staddur í Ljubljana í Slóveníu ásamt íslenska kvennalandsliðinu en liðið mætir heimakonum á morgun í umspili um laust sæti á HM 2021 sem fram fer á Spáni í desember. Liðin mætast svo aftur á Ásvöllum í Hafnarfirði 21. apríl.

„Við flugum í gegnum Frankfurt og þaðan lá leiðin til Zagreb. Eftir það tók við sex tíma rútuferð til Slóveníu og við komum hingað á liðshótelið upp úr eitt í fyrrinótt. Aðstæðurnar hérna eru mjög góðar og þetta lítur allt saman mjög vel út.

Icelandair og VITA-ferðir hjálpuðu okkur mikið við skipulagningu ferðalagsins og á sama tíma erum við orðin nokkuð vön að skipuleggja ferðalög í því umhverfi sem við búum við í dag. Það mikilvægasta í þessu öllu saman er að við pössum vel hvert upp á annað og okkur sjálf.

Slóvenía er áhættusvæði og talsvert um kórónuveirusmit hérna og við þurfum því að vera dugleg að huga að öllum sóttvörnum. Við leggjum mikið upp úr því að vernda okkur sem hópur og það hefur gengið vel hingað til,“ bætti Róbert við.

Rut Jónsdóttir er á meðal reynslumestu leikmannanna í hópnum.
Rut Jónsdóttir er á meðal reynslumestu leikmannanna í hópnum. Ljósmynd/Robert Spasovski

Kórónuveirupróf á tveggja daga fresti

Íslenski hópurinn þarf að gangast undir nokkur kórónuveirupróf meðan á verkefninu stendur vegna heimsfaraldursins.

„Við fórum í kórónuveirupróf á miðvikudaginn áður en við lögðum af stað og svo aftur í dag. Allur hópurinn var neikvæður úr fyrsta prófinu heima á Íslandi og við fáum niðurstöður úr prófinu sem við fórum í í dag í kvöld reikna ég með.

Við förum svo í annað próf við heimkomu á sunnudaginn og svo er fjórða prófið fram undan á þriðjudaginn. Við erum því í kórónuveiruprófum á tveggja daga fresti á meðan við erum í þessu verkefni.

Við sóttum um vinnustaðasóttkví fyrir allan hópinn og við heimkomuna verðum við á Grand-hóteli í svokallaðri „búbblu“. Við megum æfa og fara í leikinn en við þurfum að sótthreinsa æfinga- og keppnissalinn vel eftir okkur.

Við erum því bara á hótelinu, æfum og keppum, ef svo má segja, og það er okkar eina útivera í rauninni.“

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, er í hópnum en hún …
Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska liðsins, er í hópnum en hún gaf ekki kost á sér í leikina í undankeppni HM í Norður-Makedóníu þar sem hún er nýbökuð móðir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þekkja umhverfið ágætlega

Framkvæmdastjórinn er þakklátur leikmönnum liðsins fyrir að gefa kost á sér í verkefnið.

„Það eru allir mjög einbeittir á að standa sig vel og stelpurnar eru mjög samstilltar. Við þekkjum þetta umhverfi ágætlega eftir veru okkar í Norður-Makedóníu í undankeppninni þar sem við gengum í gegnum mjög svipað ferli og við erum í núna. Leikmennirnir fengu smjörþefinn af þessu þar og taka þessu því mjög vel. Við erum með frábæran aðbúnað á Grand-hóteli og okkur skortir ekki neitt.

Þetta er samt sem áður mikil fjarvera fyrir leikmenn, bæði frá vinnu og sínum fjölskyldum, og ég er virkilega þakklátur leikmönnunum að gefa kost á sér í þetta verkefni og taka þátt í þessu með okkur. Vonandi tekst okkur að uppskera eftir því,“ bætti Róbert við í samtali við mbl.is.

mbl.is