Fram keyrði yfir HK í síðari hálfleik

Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst Framstúlkna í dag.
Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst Framstúlkna í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fram átti ekki í miklum vandræðum með HK þegar liðin mættust í Safamýrinni í fyrsta leik þriðju umferðar úrvalsdeildar kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í dag.

Það virtist reyndar ekki stefna í öruggan sigur Framstúlkna þegar liðin gengu til búningsherbergja þar sem staðan var 17:16, heimakonum í vil, í leikhléi.

Í síðari hálfleik sáu gestirnir í HK hins vegar ekki til sólar og skoruðu aðeins fimm mörk á meðan Fram skoraði 13 og tryggði sér þannig afskaplega þægilegan níu marka sigur, 30:21.

Þórey Rósa Stefánsdóttir var markahæst Framstúlkna með átta mörk og skammt undan var Emma Olsson með sjö mörk.

Markahæst í liði HK var Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, sem skoraði átta mörk.

mbl.is