Andrea andstæðingur Eyjakvenna?

Andrea Jacobsen í landsleik.
Andrea Jacobsen í landsleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fyrramálið kemur í ljós hverjir mótherjar ÍBV verða í sextán liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik.

ÍBV hefur slegið tvö grísk lið út úr keppninni, fyrst PAOK eftir að hafa spilað báða leikina í Grikklandi og síðan Panorama eftir  tvo leiki í Vestmannaeyjum um helgina.

Eyjakonur gætu fengið íslenskan andstæðing því Kristianstad frá Svíþjóð er eitt af þeim átta liðum í efri styrkleikaflokki í drættinum sem getur orðið mótherji þeirra. Landsliðskonan Andrea Jacobsen leikur með Kristianstad og átti einmitt mjög góðan leik í síðustu umferð þegar sænska liðið vann tyrkneska mótherja af miklu öryggi.

Hin sjö liðin sem ÍBV getur mætt eru þessi:

Sokol Pisek, Tékklandi
Costa del Sol Málaga, Spáni
Elche, Spáni
Brixen Südtirol, Ítalíu
Venlo, Hollandi
Naisa Nis, Serbíu
Izmir, Tyrklandi

mbl.is