„Þurfum samt að spýta í lófana“

Valsarinn Benedikt Gunnar Óskarsson sækir að marki KA í leiknum.
Valsarinn Benedikt Gunnar Óskarsson sækir að marki KA í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, var ánægður með 26:18-sigur á KA í Olís deild karla í handbolta í dag.

„Ég er bara sáttur með stigin tvö og sannfærandi sigur. Það er hrokafullt að kvarta yfir átta marka sigri, vörnin var frábær og Bjöggi[Björgvin Páll Gústafsson, markvörður Vals] frábær. Það er svona það sem sem stendur upp úr þessum leik en það vantaði bit í okkur sóknarlega og tæknifeilarnir voru of margir svo ég sé ánægður.“

KA-liðið átti fá svör við vörn og markvörslu Vals í leiknum en liðið hafði einungis skorað 11 mörk eftir 40 mínútna leik. 

„Við skorum bara 26 mörk og það er allt of lítið svona fyrir minn smekk. Það er mjög gott að halda þeim í 18 mörkum og auðvitað eigum við að vinna þannig leiki. Ég er búinn að vera ánægður með varnarleikinn heilt yfir í vetur og þetta var í þeim dúr. Við þurfum samt aðeins að spýta í lófana hvað hina þættina varðar.“

Breidd Valsliðsins kom sér enn og aftur vel í leiknum í kvöld en alls komust 11 leikmenn á blað hjá liðinu.

„Það er alveg hægt að líta á þetta sem lúxus en við erum bara í Val og viljum vinna mótið. Þá þarftu að hafa breidd. Ég er mjög ánægður með hana og hef alltaf sagt að ég treysti öllum mínum mönnum. Í handbolta er það þannig að það má rúlla liðinu eins og maður vill svo það er mikilvægt sem þjálfari að gera það því álagið á eftir að aukast.“

Valur er á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir.

„Ég er mjög ánægður með stigasöfnunina, hún gæti ekki verið betri. Við þurfum samt að spýta aðeins í lófana, mér finnst við eiga fullt inni. Við þurfum að vera agaðri, fækka tæknifeilum og nýta færin betur.“

Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals.
Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals. Ljósmynd/Sigfús Gunnar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert