Seigla KA/Þórs dugði ekki gegn ÍBV

Eyjaliðið fagnar sigrinum eftir leik.
Eyjaliðið fagnar sigrinum eftir leik. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

ÍBV vann eins marks sigur á KA/Þór í Olís-deild kvenna í handknattleik í KA heimilinu á Akureyri í dag. 

Eyjaliðið náði strax forystunni í fyrri hálfleik og jók aðeins sitt forskot þegar leið á hann. Mest náðu Eyjakonur fimm marka forystu og fóru inn í hálfleikinn fjórum mörkum yfir, 15:11. 

Allt annað KA/Þórs lið kom út í síðari hálfleik og á níundu mínútu hans voru Akureyringar búnir að jafna metin og tveimur mínútum síðar komnir yfir, 20:19. Eftir það skiptu liðin mörkunum á milli sín en í lokin voru það Eyjakonur sem áttu síðasta svarið og unnu sterkan 28:27 sigur. 

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði ÍBV, sem og í leiknum, með 10 mörk. Á eftir henni kom Elísa Elíasdóttir með átta mörk fyrir Eyjaliðið. 

Lydía Gunnþórsdóttir var markahæst í liði KA/Þórs með átta mörk. 

ÍBV er í þriðja sæti deildarinnar með 12 stig, tveimur frá Val og Stjörnunni. KA/Þór er í fimmta sæti með fjögur. 

Mörk KA/Þórs: Lydía Gunnþórsdóttir - 8.  Nathalia Soares Baliana - 6. Aþena Einvarðsdóttir, Hildur Lilja Jónsdóttir - 4. Júlía Björnsdóttir - 3. Anna Þyrí Halldórsdóttir, Svala Björk Svanþórsdóttir - 1. 

Varin skot: Matea Lonac - 8. 

Mörk ÍBV: Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir - 10. Elíss Elíasdóttir - 8. Sunna Jónsdóttir - 6. Birna Berg Haraldsóttir - 2. Ásta Björt Júlíusdóttir, Sara Dröfn Ríkarðsdóttir - 1. 

Varin skot: Marta Wawrzykowska - 15.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert