„Sjö mörk og bara hálfleikur“

Magnús Óli Magnússon sækir að marki Göppingen í kvöld.
Magnús Óli Magnússon sækir að marki Göppingen í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Óli Magnússon var markahæstur í liði Vals þegar liðið tapaði 29:36 í fyrri leik þess gegn Göppingen í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í handknattleik í kvöld.

Magnús Óli skoraði átta mörk og kvaðst nokkuð sáttur við sóknarleikinn gegn öflugu varnarliði en að varnarleikur Vals hefði mátt vera betri.

„Við fáum 36 mörk á okkur og vorum of slitnir í vörn. Þeir keyrðu mun meira en ég átti von á. Við vorum líka með allt of mikið af töpuðum boltum.

Þeir refsuðu örugglega í hvert einasta skipti sem við töpuðum boltanum. En við erum að skora 29 mörk á móti svona góðu varnarliði og fáum mörg dauðafæri til viðbótar,“ sagði Magnús Óli í samtali við mbl.is eftir leik.

„Þeir sýndu ekkert vanmat í dag. Þeir voru bara allir á fullu. Þeir voru drullugóðir, stórir og sterkir. Það bara skilur að,“ hélt hann áfram.

Oft og tíðum átti Valur í erfiðleikum með að finna glufur þegar Göppingen náði að stilla upp í varnarleik sínum.

„Þeir eru góðir þristarnir og krossa aldrei. Við vorum að finna línuna svona af og til. En þeir eru góðir í vörn og fiskuðu menn í tæknifeila og svo refsuðu þeir strax,“ sagði Magnús Óli.

Þrátt fyrir sjö marka tap sagði hann Valsmenn síður en svo af baki dottna.

„Það voru nokkrir hlutir hjá okkur sem voru ekki alveg upp á tíu en þetta eru bara sjö mörk og það er bara hálfleikur. Ég er bjartsýnn.

Við ætlum að æfa vel í vikunni og koma af fullum krafti inn í næsta leik. Það er eina vitið og það eru allir á sömu blaðsíðu. Þá getur allt gerst.“

mbl.is