Ferðuðust frá Þýskalandi til Vestmannaeyja fyrir leikinn

Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson, með Guðmund Guðmundsson …
Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson, með Guðmund Guðmundsson sin á milli. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson, atvinnu- og landsliðsmenn í handbolta, gerðu sér ferð frá Þýskalandi til Vestmannaeyja til að mæta á þriðja leik ÍBV og Hauka í úrslitum Íslandsmótsins, en flautað verður til leiks í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum klukkan 19:15.

Þeir eru uppaldir hjá ÍBV, en eru í dag liðsfélagar hjá Gummersbach í Þýskalandi og íslenska landsliðinu. Þeir ákváðu að slá til og skella sér heim og fylgjast með sínu liði. Mbl.is rakst á Hákon á veitingastað í Vestmannaeyjum og tók hann tali.

„Það vildi svo heppilega til að það var helgarfrí hjá okkur Elliða. Elliði á tvo bræður í ÍBV og við eigum marga vini í liðinu. Við höldum báðir með ÍBV og okkur fannst sjálfsagt að kíkja, fyrst við getum það. Það er um að gera að sýna stuðning á einhvern hátt og taka þátt í þessu,“ sagði Hákon. 

Hákon Daði Styrmisson í leik með ÍBV.
Hákon Daði Styrmisson í leik með ÍBV. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hákon hefur leikið með báðum liðum, en hann hefur verið í herbúðum Gummersbach í Þýskalandi í tvö ár. Hann nýtir hvert tækifæri til að fylgjast með uppeldisfélaginu.

„Ég hef horft á alla leikina í þessu einvígi, þessari úrslitakeppni og langflestum leikjum í deildinni líka. Það er gaman að fylgjast með peyjunum sem eru í liðinu, ekki bara hjá ÍBV heldur í deildinni. Ég hef reynt að hafa puttann á púlsinum.“

Hákon sagði andrúmloftið sem myndast í Vestmannaeyjum fyrir stóra leiki í handboltanum engu líkt.

„Leikurinn er seint, það eru allir að bíða og allir spenntir. Dagurinn líður hægt. Þú getur spurt hvern sem er hér í Vestmannaeyjum og hann er annað hvort á leiðinni á leikinn eða að fara að horfa á hann heima.

Hákon í fanginu á Eyjamönnum í treyju Hauka.
Hákon í fanginu á Eyjamönnum í treyju Hauka. Haraldur Jónasson/Hari

Það er smá erfitt að lýsa þessu, en það eru allir að róa í sömu átt. Það eru allir að hjálpast að og allir eru partur af þessu. Það þurfti að fara Þorlákshafnarleiðina í leik tvö, en samt var stúkan nánast full á Ásvöllum. Það er fullt af fólki í Reykjavík sem er Eyjafólk og það mætir, eins og fólkið sem kemur frá Eyjum, sem mætir sama hvernig viðrar og hvaða dagur er. Þetta gerist ekki betra,“ sagði hann.

Hákon varð Íslandsmeistari með ÍBV árið 2014, en var þá í litlu hlutverki og fylgdist mest með á hliðarlínunni. Þrátt fyrir það var fagnað vel, eins og Eyjamönnum sæmir.

„Ég var á hliðarlínunni 2014 og tók ekki mikinn þátt í því. Eyjamenn kunna að fagna og þetta eru fagnaðarlæti sem þú vilt prófa og fá að vera með í. Þetta býr til mennina,“ sagði hann. 

mbl.is