„Þú ert í HM-hóp“

Björn Bergmann Sigurðarson í leiknum gegn Perú í vetur.
Björn Bergmann Sigurðarson í leiknum gegn Perú í vetur. AFP

Björn Bergmann Sigurðarson segir draum hafa ræst þegar hann fékk SMS þess efnis að hann væri í leikmannahópi Íslands sem keppir á HM í Rússlandi. 

„Þetta var stórt augnablik. Um morguninn fékk ég SMS þar sem stóð: „Þú ert í HM-hóp.“ Þar rættist draumur. Það er bara þannig,“ sagði Björn þegar mbl.is ræddi við hann fyrir landsliðsæfingu í morgun. 

Björn er Skagamaður og þrír hálfbræður hans komu talsvert við sögu hjá A-landsliðinu á árum áður. Þeir Þórður, Bjarni og Jóhannes Karl Guðjónssynir. Allir eru þeir kunnir keppnismenn. Spurður um hvort Björn hafi ekki verið duglegur að nudda þeim upp úr því að hann hafi fram yfir þá að fara á stórmót með landsliðinu vill hann ekki kannast við það.

„Nei það hefur verið lítið um það. Þeir eru hrikalega stoltir af manni og vildu örugglega sjálfir vera í þessum sporum. Þeir eru ánægðir fyrir mína hönd.“

Björn er vel á sig kominn eftir keppnistímabilið en hann leikur með Rostov í Rússlandi. „Ég held ég hafi aldrei verið betri. Mér fannst ég standa mig nokkuð vel í Rússlandi. Skoraði þetta mark áður en ég fór úr axlarlið. Þess vegna var ég frá um tíma en er orðinn góður núna og klár í næsta leik,“ sagði Björn en Ísland mun einmitt spila einn leik í Rostov á HM. Björn segir rússnesku deildina vera býsna sterka. 

„Já hún er sterkari en þú myndir halda. Margir segja að sú rússneska sé lík norsku deildinni en mér finnst sú norska ekki komast nálægt þeirri rússnesku. Deildin er stærri og persónulega finnst mér leikmennirnir vera sterkari og fótboltinn sem er spilaður miklu betri,“ sagði Björn Bergmann við mbl.is í dag. 

Þórður og Bjarni Guðjónssynir í landsleik.
Þórður og Bjarni Guðjónssynir í landsleik. mbl.is/Brynjar Gauti
Jóhannes Karl Guðjónsson í landsleik gegn Ítalíu.
Jóhannes Karl Guðjónsson í landsleik gegn Ítalíu. mbl.is/Árni Torfason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert