Japan byrjar með sigri

Japan byrjar HM með góðum sigri á Kólumbíumönnum.
Japan byrjar HM með góðum sigri á Kólumbíumönnum. AFP

Kólumbía og Japan mættust í dag í H-riðli heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu í Saransk í Rússlandi. Leikurinn endaði með sanngjörnum 2:1 sigri Japana sem léku manni fleiri nánast allan leikinn.

Leikurinn fór heldur betur fjörlega af stað því strax á þriðju mínútu fékk Japan vítaspyrnu þegar varnarmaður Kólumbíu, Carlos Sánchez, stöðvaði skot Shinji Kagawa með útréttri hendi. Sánchez fékk að launum rautt spjald. Kagawa tók vítaspyrnuna sjálfur og skoraði örugglega.

Kólumbíumenn voru staðráðnir í að jafna þrátt fyrir að vera manni færri. Hægt og rólega tóku þeir yfir leikinn og á 39. mínútu jöfnuðu þeir með marki beint frá Juan Quintero beint úr aukaspyrnu.

Japanir komu yfirvegaðri til leiks í seinni hálfleik og nýttu liðsmuninn betur en í þeim fyrri. Á 73. mínútu skoraði Yuya Osako með skalla eftir hornspyrnu og þar við sat. 2:1 sigur Japan staðreynd og Japanir því á toppi H-riðils með 3 stig á meðan Kólumbía er enn án stiga.

Pólland og Senegal eru einnig í H-riðlinum og mætast klukkan 15.00 en þar með lýkur fyrstu umferð riðlakeppninnar. Önnur umferð hefst í kvöld kl. 18 með leik Egyptalands og Rússlands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert