Leiðinleg úrslit

Aron Einar Gunnarsson í baráttunni við Kelechi Iheanacho í leiknum …
Aron Einar Gunnarsson í baráttunni við Kelechi Iheanacho í leiknum í dag. AFP

„Við byrjuðum seinni hálfleikinn ekki nægilega vel en mér fannst við samt sem áður vera að fá ágætis tækifæri sóknarlega,“ sagði Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði ís­lenska landsliðsins í knatt­spyrnu í sam­tali við RÚV eft­ir 2:0 tap liðsins gegn Níg­er­íu í ann­arri um­ferð D-riðils heims­meist­ara­móts­ins í Volgograd í dag.

Ah­med Musa skoraði bæði mörk Níg­er­íu í síðari hálfleik en ís­lenska liðið er nú í þriðja sæti D-riðils með 1 stig, líkt og Arg­entína en Króatía er á toppi riðils­ins með 6 stig og Níg­er­ía er í öðru sæt­inu með 3 stig. Ísland þarf því að vinna Króata í loka­leik sín­um í riðlin­um, 26. júní næst­kom­andi í Rostov og treysta á að Níg­er­ía tapi stig­um gegn Arg­entínu. 

„Þetta eru leiðinleg úrslit, sérstaklega í ljósi þess að fyrsta markið þeirra kemur eftir fast leikatriði hjá okkur. Við þurfum að vera negldir á menn bakvið okkur í svona stöðu og þetta var kæruleysi af okkar hálfu. Þeir spiluðu vel í dag, svo einfalt er það.“

Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu.
Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu. AFP

Áfram gakk

Aron viðurkennir að mark seint í leiknum hefði gefið íslenska liðinu aukakraft í restina en Gylfi Þór Sigurðsson misnotaði vítaspyrnu á 83. mínútu.

„Ég er ennþá að melta þennan leik en þetta eru leiðinleg úrslit. Auðvitað erum við pirraðir, það er eðlilegt. Gylfi klikkar ekki á mörgum vítum og hann mun taka næsta víti sem við fáum, það er klárt mál. Það er bara áfram gakk, svona hlutir gerast. Það hefði verið gaman að skora á þarna undir lokin og geta þá sett smá pressu á þá undir restina.“

Ísland þarf að vinna Króatíu til þess að komast áfram í sextán liða úrslit keppninnar og Aron segir að það verði erfitt verkefni.

„Eins og ég sagði áðan þá eru þetta leiðinleg úrslit en það er ennþá möguleiki til staðar. Þetta er ekki í okkar höndum lengur og við þurfum að treysta á hagstæð úrslit hjá Nígeríu og Argentínu og vinna svo Króatíu. Það verður gríðarlega erfitt verkefni því þeir eru búnir að vera spila frábærlega á þessu móti,“ sagði Aron Einar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert