Allir með á æfingunni í Rostov

Landsliðið á æfingu á Rostov Arena í morgun.
Landsliðið á æfingu á Rostov Arena í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íslenska landsliðið er þessa stundina á æfingu á Rostov Arena leikvanginum en þar mætir það Króötum í lokaumferð riðlakeppninnar á HM á morgun.

Allir 23 leikmennirnir í hópnum eru með á æfingunni og standa vonir til þess að Jóhann Berg Guðmundsson verði leikfær en hann gat ekki spilað á mót Nígeríumönnum vegna meiðsla.

Það er heitt í veðri í Rostov í dag. Hitinn er um 30 gráður og sólin skín á köflum. Þegar leikurinn hefst á morgun klukkan 21 að staðartíma, 18 að íslenskum, gerir veðurspáin ráð fyrir að það verði skýjað og 32 stiga hiti.

Leikmenn íslenska landsliðsins í léttum reitarbolta á Rostov Arena í …
Leikmenn íslenska landsliðsins í léttum reitarbolta á Rostov Arena í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rostov Arena er nýr og glæsilegur leikvangur sem vígður var á þessu ári. Völlurinn tekur 45 þúsund áhorfendur en 43,500 á leikjunum á HM. Þetta er heimavöllur þeirra Ragnars Sigurðssonar, Sverrir Inga Ingasonar og Björns Bergmann Sigurðarsonar en þeir spila allir með rússneska úrvalsdeildarliðinu Rostov.

Klukkan 13.15 að staðartíma, 10.15 að íslenskum tíma, verður fréttamannafundur íslenska liðsins þar sem landsliðsþjálfarinn Heimir Hallgrímsson og væntanlega fyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson sitja fyrir svörum fréttamanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert