Hafa ástæðu til þess að gráta

Leikmenn enska landsliðsins þakka stuðningsmönnum fyrir stuðninginn eftir tapið gegn ...
Leikmenn enska landsliðsins þakka stuðningsmönnum fyrir stuðninginn eftir tapið gegn Króötum í gærkvöld. AFP

José Mourinho knattspyrnustjóri Manchester United segir að Englendingar hafi ástæðu til þess að gráta eftir að hafa tapað fyrir Króötum í framlengdum leik í undanúrslitum á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Moskvu í gærkvöld.

„Englendingar hafa að sjálfsögðu ástæðu til þess að gráta en þeir hafa líka ástæðu til þess að vera bjartsýnir. Liðið hefur bætt sig mikið og leikmannahópurinn er ungur. Stór hluti af hópnum getur tekið þátt í næsta heimsmeistaramóti og hafa þá öðlast meiri reynslu með félagsliðum sínum,“ segir Mourinho sem hefur starfað fyrir rússneska sjónvarpsstöð á HM.

„Ef ég væri í formaður enska knattspyrnusambandsins þá myndi ég halda þjálfarateyminu og veita þeim tækifæri á að fara með liðið á næsta Evrópumót og heimsmeistaramót. Leikmenn og allir sem að enska landsliðinu koma hafa ástæðu til að koma heim fullir af stoltir. Þeir hafa gert þjóð sína afar stolta,“ segir Mourinho.

mbl.is