Fullyrt að Katarbúar hafi haft rangt við

Fulltrúar Katar voru mættir á HM í Rússlandi til að ...
Fulltrúar Katar voru mættir á HM í Rússlandi til að bjóða knattspyrnuheiminn velkominn til Katar árið 2022. AFP

Enska blaðið Sunday Times fullyrðir í dag að Katarbúar hafi notað ólöglegar aðferðir til að skemma fyrir keppinautum sínum í baráttunni um að fá úthlutað gestgjafahlutverki heimsmeistaramóts karla í knattspyrnu árið 2022.

Árið 2010 var Katar úthlutað mótshaldinu 2022, um leið og Rússum var úthlutað mótinu sem fram fór í sumar.

Sunday Times fullyrðir að blaðið hafi fengið að sjá gögn sem sýni að undirbúningsnefnd Katar hafi ráðið bandarískt ráðgjafafyrirtæki og fyrrverandi starfsmenn bandarísku leyniþjónustunnar CIA til að sá efasemdarfræjum um hæfni keppinautanna, aðallega Bandaríkjanna og Ástralíu, til að halda keppnina árið 2022. Suður-Kórea og Japan sóttust einnig eftir mótshaldinu. Hafi slíkar aðgerðir verið settar af stað, brjóta þær gegn reglum FIFA um umsóknir fyrir HM.

Í yfirlýsingu frá Katar segir að fullyrðingum Sunday Times sé hafnað, hverri og einni. Umsókn Katarbúa hafi verið rannsökuð rækilega án þess að neitt athugavert hafi fundist og farið hafi verið að einu og öllu eftir reglum FIFA.

FIFA lýsir því yfir að bandaríski hæstaréttarlögmaðurinn Michael Garcia hafi stýrt ítarlegri tveggja ára rannsókn á umsókn Katar og niðurstöður hans séu öllum opnar í skýrslu hans.

Sunday Times kveðst hafa komist yfir gögnin í gegnum fulltrúa í undirbúningsnefnd Katar og upplýsingarnar sem þar sé að finna hafi ekki verið til staðar þegar rannsókn FIFA fór fram.

Meðal annars er sagt að Katarbúar hafi greitt þekktum bandarískum fræðimanni 9 þúsund dollara fyrir að skrifa neikvæða grein um hvað það myndi kosta Bandaríkjamenn að halda keppnina og henni hafi verið dreift til fjölmiðla um allan heim.

Fréttamenn, bloggarar og þekktir einstaklingar í viðkomandi löndum hafi verið ráðnir til að blása upp neikvæðar hliðar á umsóknum þeirra þjóða.

Bandarískir íþróttakennarar hafi verið fengnir til að biðja bandaríska þingmenn um að leggjast gegn því að Bandaríkin myndu halda keppnina og veita frekar fjármunum í uppbyggingu á háskólaíþróttum í landinu.

Bandaríkin, Kanada og Mexíkó hafa í sameiningu fengið úthlutað lokakeppni HM árið 2026.

mbl.is