Gana vann fjörugan fimm marka leik

Mohammed Kudus fagnar öðru marki sínu í dag og þriðja …
Mohammed Kudus fagnar öðru marki sínu í dag og þriðja marki Gana gegn Suður-Kóreu. AFP/Khaled Desouki

Gana sigraði Suður-Kóreu, 3:2, í bráðfjörugum leik í H-riðli heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Al Rayyhan í Katar í dag.

Mohammed Salisu kom Gana yfir á 24. mínútu og Mohammed Kudus bætti við marki á 34. mínútu. Cho Gue-sung minnkaði muninn fyrir Suður-Kóreu í 1:2 á 58. mínútu og á 61. mínútu skoraði Cho aftur og jafnaði, 2:2. Kudus skoraði sitt annað mark fyrir Gana á 69. mínútu og kom liði sínu yfir á ný, 3:2.

Gana er með 3 stig en Suður-Kórea eitt eftir tvær umferðir. Portúgal og Úrúgvæ mætast klukkan 19 en Portúgal er með 3 stig og Úrúgvæ eitt. Suður-Kórea á því enn veika von um að komast áfram þrátt fyrir tapið.

Suður-Kórea byrjaði betur og mikil hætta skapaðist við markteig Gana á 8. mínútu eftir skot frá Jeong Woo-yeong en Ganamenn náðu að bjarga í horn. Suður-Kórea átti fjórar marktilraunir og fékk sjö hornspyrnur á fyrstu 20 mínútum leiksins.

Gana náði hinsvegar forystunni með sinni fyrstu marktilraun á 24. mínútu. Jordan Ayew tók aukaspyrnu á vinstri kantinum og sendi boltann inn að markteig. Þar féll hann fyrir miðvörðinn Mohamed Salisu sem kom honum yfir marklínuna. Gana var komið með forystuna, 1:0.

Gana jók forskotið á 34. mínútu þegar Mohammed Kudus skoraði með skalla eftir fyrirgjöf Jordans Ayew frá vinstri kantinum, 2:0.

Engu munaði að Thomas Partey skoraði þriðja mark Gana þegar hann skallaði framhjá marki Suður-Kóreu úr dauðafæri í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Cho Gue-sung var nærri því að minnka muninn á 53. mínútu þegar hann átti hörkuskot af stuttu færi en Lawrence Ati-Zigi í marki Gana varði glæsilega frá honum.

Suður-Kórea minnkaði muninn í 2:1 á 58. mínútu. Lee Kang-in, nýkominn inn á sem varamaður, rændi boltanum af varnarmanni á vinstri kantinum og sendi fyrir markið þar sem Cho Gue-sung stakk sér fram og skoraði með skalla af markteig.

Aðeins þremur mínútum síðar skoraði Cho Gue-sung aftur, mjög keimlíkt mark, og jafnaði metin í 2:2. Nú var það Kim Jin-su sem sendi boltann fyrir markið frá vinstri og Cho skoraði aftur með skalla.

Gana var ekki lengi að ná forystunni aftur því á 69. mínútu skoraði Mohammed Kudus sitt annað mark með skoti úr miðjum vítateig eftir fyrirgjöf frá vinstri kantinum.

Lee Kang-in átti hættulegt skot úr aukaspyrnu að marki Gana á 75. mínútu en Lawrence Ati-Zigi varði vel í horn. Rétt á eftir var Son Heung-min í dauðafæri en varnarmaður Gana komst fyrir skotið í markteignum.

Cho komst í gott færi í 10 mínútna uppbótartímanum en Ati-Zigi í marki Gana varði vel frá honum. Suður-Kórea sótti án afláts á lokamínútunum.

Paulo Bento þjálfari Suður-Kóreu rauða spjaldið í leikslok en hann mótmælti því harkalega að Anthony Taylor dómari skyldi ekki leyfa sínum mönnum að taka hornspyrnu sem þeir fengu rétt áður en hann flautaði leikinn af.

Lið Suður-Kóreu:
Mark: Kim Seung-gyu.
Vörn: Kim Moon-hwan, Kim Min-jae (Kwon Kyung-won 90+2), Kim Young-gwon, Kim Jin-su.
Miðja: Kwon Chang-hoon (Lee Kang-in 57.), Hwang In-beom, Jeong Woo-yeong (Na Sang-ho 46.), Jung Woo-young (Hwang Ui-jo 78.), Son Heung-min.
Sókn: Cho Gue-sung.

Lið Gana:
Mark: Lawrence Ati-Sigi.
Vörn: Tariq Lamptey (Denis Odoi 78.), Daniel Amartey, Mohamed Salisu, Gideon Mensah.
Miðja: Thomas Partey, Salis Abdul-Samed, Mohammed Kudus (Alexander Djiku 83.)
Sókn: André Ayew (Daniel-Kofi Kyereh 78.), Inaki Williams, Jordan Ayew (Kamaldeen Sulemana 78.)

Cho Gue-sung skorar sitt annað skallamark fyrir Suður-Kóreu á þremur …
Cho Gue-sung skorar sitt annað skallamark fyrir Suður-Kóreu á þremur mínútum og jafnar metin í 2:2 gegn Gana. AFP/Jung Yeon-je
Cho Gue-sung fagnar öðru markanna en hann skoraði tvisvar fyrir …
Cho Gue-sung fagnar öðru markanna en hann skoraði tvisvar fyrir Suður-Kóreu á þriggja mínútna kafla og jafnaði metin í 2:2. AFP/Jung Yeon-je
Mohammed Kudus fagnar eftir að hafa komið Gana í 2:0.
Mohammed Kudus fagnar eftir að hafa komið Gana í 2:0. AFP/Jung Yeon-je
Mohammed Salisu fagnar ásamt Salis Abdul Samed eftir að hafa …
Mohammed Salisu fagnar ásamt Salis Abdul Samed eftir að hafa komið Gana yfir, 1:0. AFP/Jung Yeon-je
Kim Moon-hwan hjá Suður-Kóreu og Jordan Ayew hjá Gana í …
Kim Moon-hwan hjá Suður-Kóreu og Jordan Ayew hjá Gana í baráttu um boltann í dag. AFP/Odd Andersen
Lið Suður-Kóreu og Gana fyrir leikinn í dag.
Lið Suður-Kóreu og Gana fyrir leikinn í dag. AFP/Jung Yeon-je
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert