Sárt að sjá strákana í þessari stöðu

Thiago Silva ræddi við fréttamenn í Katar í dag.
Thiago Silva ræddi við fréttamenn í Katar í dag. AFP/Nelson Almeida

Thiago Silva, hinn reyndi varnarmaður Brasilíumanna, segir að það hafi verið erfitt fyrir leikmannahópinn að missa Gabriel Jesus og Alex Telles út úr honum vegna meiðsla.

Hvorugur spilar meira með brasilíska liðinu á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu í Katar en Brasilía leikur þar gegn Suður-Kóreu í sextán liða úrslitunum annað kvöld.

„Ég verð að viðurkenna að fyrir æfinguna í gær var það mjög erfið stund og sárt að sjá strákana í þessari stöðu - að þeir ættu ekki eftir að koma aftur inn á völlinn með okkur. Það var mikil sorg," sagði Silva.

„En mótið heldur hins vegar áfram og þeir þurfa líka að halda áfram. Við verðum að hughreysta þá með því að spila vel og ég vona að allir verði fljótir að jafna sig. Við vonum að aðrir í hópnum séu tilbúnir. Það var ánægjulegt að sjá Danilo, Neymar og Alex Sandro á betri braut, þeir geta haft mikið að segja fyrir okkur," sagði Silva enn fremur á fundinum.

Staðfest var að Neymar og Danilo gætu spilað gegn Suður-Kóreu en Sandro væri ekki tilbúinn í þann leik.

mbl.is