Tólf fara áfram í stað sextán

Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Ýmir Örn Gíslason …
Gísli Þorgeir Kristjánsson, Ómar Ingi Magnússon og Ýmir Örn Gíslason eru þrír af ungu leikmönnunum í íslenska liðinu. mbl.is/Hari

Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, breytti keppnisfyrirkomulaginu á HM aftur til fyrra horfs fyrir þessa lokakeppni í Þýskalandi og Danmörku en mótið hefst í kvöld með tveimur leikjum.

Á þremur síðustu heimsmeistaramótum, 2013 á Spáni, 2015 í Katar og 2017 í Frakklandi, komust sextán lið áfram úr riðlakeppninni og léku útsláttarkeppni fram að úrslitaleiknum.

Núna er hinsvegar horfið aftur til þess fyrirkomulags sem síðast var notað á HM 2011 í Svíþjóð og hafði verið við lýði á mörgum fyrri mótum. Tólf lið komast áfram í stað sextán, þrjú úr hverjum riðlanna fjögurra, og þau skiptast síðan í tvo sex liða milliriðla, sem leiknir verða í Köln í Þýskalandi og Herning í Danmörku.

Þetta þýðir að Ísland þarf að ná þriðja sæti B-riðils til að komast í milliriðil I í Köln en þangað koma liðin sex sem fara áfram úr A- og B-riðlunum.

Endi Ísland t.d. í þriðja sæti á eftir Spáni og Króatíu yrðu andstæðingar í milliriðlinum væntanlega Frakkland og Þýskaland ásamt Serbíu eða Rússlandi.

Tvö efstu lið í hvorum milliriðli komast í undanúrslitin, sem leikin verða í Hamborg föstudaginn 25. janúar.

Sigurliðin í Hamborg mætast í úrslitaleiknum í Herning sunnudaginn 27. janúar en á undan leika tapliðin um bronsverðlaunin.

Á laugardeginum spila hinsvegar liðin sem enda í þriðja og fjórða sæti milliriðlanna tveggja um fimmta og sjöunda sætið í Herning.

Liðin sem hafna í fimmta og sjötta sæti milliriðlanna tveggja hafa hinsvegar lokið keppni á HM miðvikudaginn 23. janúar þegar milliriðlakeppninni lýkur.

Fjórða sæti þýðir Forsetabikar

Ef Ísland endar í fjórða sæti B-riðils fer liðið eftir sem áður til Kölnar en þá til að spila um Forsetabikarinn dagana 19. og 20. janúar. Þá yrði leikið við liðið sem endar í fjórða sæti A-riðils, sem gæti vel verið Rússland eða Serbía, og síðan við fjórða lið úr C- eða D-riðli um þrettánda eða fimmtánda sætið.

Fari svo að Ísland endi í fimmta eða sjötta sæti riðilsins liggur leiðin til Kaupmannahafnar. Þar er spilað um 17. til 24. sætið dagana 19. og 20. janúar. Ef Ísland myndi enda í fimmta sæti væri spilað við fimmta lið A-riðils, væntanlega Brasilíu eða Kóreu, og síðan við lið úr C- eða D-riðli um sæti sautján eða nítján.

Annars yrði spilað við neðsta lið A-riðils í keppninni um sæti 21 til 24.

Greinin er úr HM-blaði Morgunblaðsins sem fylgdi blaðinu miðvikudaginn 9. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert