Króatar alltaf í fremstu röð

Ólafur Guðmundsson stekkur upp að vörn Króata á EM 2016.
Ólafur Guðmundsson stekkur upp að vörn Króata á EM 2016. Ljósmynd/Foto Olimpik

Fyrsti andstæðingur íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu verður landslið Króata. Um er að ræða gamalkunnugan andstæðing þótt vissulega hafi króatíska landsliðið gengið í gegnum sínar breytingar á liðnum árum eins og það íslenska.

Þau eru fá stórmótin á þessari öld þar sem Íslendingar og Króatar hafa ekki leitt saman hesta sína. Og því miður er tölfræðin ekki hægstæð íslenska liðinu. Eitt jafntefli á EM í Austurríki fyrir níu árum, 26:26. Síðast áttust þjóðirnar við á EM fyrir ári, í Split, og enn og aftur unnu Króatar öruggan sigur, 29:22, eftir ágætan fyrri hálfleik af hálfu Íslendinga.

Hagfræðingurinn og fyrrverandi þingmaðurinn Lino Cervar er við stjórnvölinn hjá króatíska liðinu. Hann tók við á nýjan leik sumarið 2017 og átti að vinna til verðlauna á EM á heimavelli fyrir ári. Það lánaðist honum og liðinu ekki og telja margir töfra Cervars fara þverrandi á hliðarlínunni. Hann nýtur þess að hafa verið þjálfari Króata þegar landsliði þeirra gekk hvað best á árunum 2002 til 2010 þegar það varð m.a. heimsmeistari 2003 og ólympíumeistari árið eftir auk þess að vinna til silfurverðlauna á HM 2005 og 2009 og á EM 2008.

Um tíma leit út fyrir að Cervar ætlaði að stokka upp í leikmannahópi landsliðsins eftir EM á síðasta ári þegar Króatar höfnuðu í fimmta sæti. Ef marka má hópinn sem hann valdi til æfinga, 20 leikmenn, í upphafi nýs árs verða breytingarnar ekki miklar. Domagoj Duvnjak, leikmaður Kiel, og Luka Cindric, leikstjórnandinn frábæri hjá Vive Kielce, verða áfram í aðahlutverkum ásamt Luka Stephancic, leikmanni PSG, Zlatko Horvat hjá Zagreb og Manuel Strlek, liðsmanni Veszprém.

Alltaf agaðir og kröftugir

Króatar leika alltaf agaðan handknattleik en kannski ekki þann skemmtilegasta oft og tíðum og vafalaust verður þar engin breyting á undir stjórn Cervars. Sóknarleikurinn hefur hins vegar reynst þeim árangursríkur. Leikmenn liðsins eru hávaxnir og kröftugir og afar vel þjálfaðir enda leika þeir allir með allra fremstu félagsliðum heims. Varnarleikurinn er skipulagður og góður, oft með framliggjandi 5/1 eða 3/2/1.

Helsti akkilesarhæll króatíska landsliðsins hefur verið markvarslan sem hefur verið æði misjöfn á milli leikja eftir að Mirko Alilovic hætti að leika með landsliðinu fyrir fáeinum árum.

Greinin er úr HM-blaði Morgunblaðsins sem fylgdi blaðinu miðvikudaginn 9. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert