„Gaman að sjá Gumma brosa á hliðarlínunni“

Kristján brýst í gegnum vörn Sviss í leik liðanna á …
Kristján brýst í gegnum vörn Sviss í leik liðanna á HM á miðvikudaginn. AFP

Kristján Örn Kristjánsson er að stíga sín fyrstu skref með íslenska landsliðinu á stórmóti á HM í handknattleik í Egyptalandi en Kristján hefur komið við sögu í skyttustöðunni hægra megin í síðustu tveimur leikjum. 

Mbl.is tók Kristján Örn tali og spurði hvort erfitt yrði fyrir landsliðsmennina að rífa sig upp fyrir leikinn gegn Frakklandi í dag eftir naumt tap gegn Sviss í leik þar sem fátt gekk upp hjá íslenska liðinu í sókninni.

„Nú er bara áfram gakk. Við vinnum saman og töpum saman. Við töpuðum fyrsta leiknum á móti Portúgal og þá var bara hugsað um næsta verkefni og við unnum í framhaldinu Alsír og Marokkó nokkuð örugglega. Svo töpuðum við þessum leik á móti Sviss með tveggja marka mun. Það er eins og það er en sigurinn gat fallið á hvorn veginn sem var. Við verðum að halda áfram og klára leikina sem eftir eru með stæl. Það verður bara að koma í ljós hverju það skilar,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson þegar mbl.is tók hann tali í gær en hann er gjarnan kallaður Donni í handboltaheiminum hérlendis. 

Kristján kominn í lárétta stöðu í gegnumbroti gegn Sviss.
Kristján kominn í lárétta stöðu í gegnumbroti gegn Sviss. AFP

Hann gekk síðasta sumar til liðs við Pays d'Aix sem leikur í efstu deild í Frakklandi. Þar stimplaði hann sig hratt inn í atvinnumennskunni og hefur staðið sig vel. Frammistaðan skilaði honum inn í HM-hóp Íslands þótt samkeppnin um skyttustöðuna sé mikil. Er ekki sérstaklega skemmtilegt fyrir Kristján að mæta Frökkum fyrst hann er leikmaður með frönsku liði? 

„Ég var sérstaklega spenntur fyrir því að mæta markverðinum, honum Wesley [Pardin] en hann var nú að meiðast. Þá er bara Nicolas [Claire] eftir í franska liðinu sem er miðjumaður í liðinu mínu. En ég veit ekki hvort hann hafi verið mikið á skýrslu í mótinu. Ég hef ekki getað fylgst nógu vel með því. Fjórir liðsfélagar mínir voru í æfingahópi Frakklands um jólin og tveir komust í HM-hópinnn hjá þeim. Á heildina litið verður þetta bara skemmtilegt verkefni,“ sagði Kristján Örn og telur að fyrir hendi séu sóknarfæri fyrir Íslendinga gegn Frökkum. 

„Ég myndi segja að Frakkarnir séu slakari en þeir hafa verið síðasta áratuginn. Mér finnst að við ættum að eiga möguleika ef við spilum betur í sókninni en við gerðum gegn Sviss. Ef það tekst, og við höldum áfram svipaðri spilamennsku í vörninni, þá ættum við að eiga góða möguleika á sigri. Frakkarnir eru mjög fínir í vörn eins og þeir hafa lengi verið. Þeir eru flestir stærri en við og standa vörnina yfirleitt vel. Við þurfum að finna lausnir á móti þeim þar og splundra vörninni. Einnig væri gott að fá hraðaupphlaup til að létta á sókninni.“

Fékk góð ráð hjá Alexander

Kristján Örn er 23 ára gamall og á að baki ófáa landsleikina með yngri landsliðum Íslands. Mjög margir frambærilegir leikmenn komu fram á Íslandi sem eru á svipuðum aldri og Kristján. Nældu þeir til að mynda í bronsverðlaun á HM U19 ára í Rússlandi á sínum tíma og var Kristján Örn í því liði. Hann fær nú aukin tækifæri með A-landsliðinu eftir að hann steig skrefið út í atvinnumennsku en Kristján Örn er uppalinn í Fjölni og lék einnig með ÍBV hérlendis. 

„Þetta mjakast hjá mér. Ég hef fengið mínútur hér og þar. Maður reynir að nýta þær eins vel og mðaur getur. Það er ekkert annað en heiður að fá að vera með þessum strákum í landsliðinu og standa í þessu með þeim. Það er geggjað,“ sagði Kristján en gamla kempan Alexander Petersson hefur verið duglegur að gefa af sér og miðla af reynslunni til Kristjáns, Viggó Kristjánssonar og Ómars Inga Magnússonar sem allir geta spilað í skyttustöðunni hægra megin. 

„Alexander hefur gefið mér góð ráð eftir leiki. Þá höfum við spjallað saman um leikina og það er mjög fínt að geta talað við hann því Alexander er auðvitað alger reynslubolti. Það er sárt að missa hann núna til Þýskalands því það var mjög gott að fá góð ráð hjá honum og hann er líka bara svo góður maður,“ sagði Kristján en tilkynnt var í dag að Alexander yrði ekki meira með á HM af persónulegum ástæðum.  

Kristján Örn fékk tækifæri gegn Portúgal í undankeppni EM á …
Kristján Örn fékk tækifæri gegn Portúgal í undankeppni EM á Ásvöllum í janúar, áður en haldið var til Egyptalands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Blaðamaður færir í tal fyrsta mark Kristjáns á stórmóti. Kristján Örn var ekki lengi að afgreiða það mál því þegar honum var skipt inn á gegn Marokkó fór hann beint í skot í fyrstu sókninni og þrumaði knettinum í markhornið. Ísland hafði tekið leikhlé og Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari gaf skipun um leikkerfi þar sem Kristján gat sótt inn á miðjuna og fengið boltann. Var ekki ljúft að sjá boltann í netinu?

„Jú það var það. Ég hafði setið á bekknum í 55 mínútur og beðið eftir tækifærinu. Þegar maður loksins fær það þá ætlar maður aldeilis að nýta það. Mér fannst ég gera það nokkuð vel og það var gaman að sjá Gumma brosa út fyrir eyru á hliðarlínunni. Maður hefur kannski ekki séð það síðan á Ólympíuleikunum 2008,“ sagði Kristján Örn Kristjánsson í léttum dúr í samtali við mbl.is í gær. 

Kristján Örn og Guðmundur Þ. Guðmundsson.
Kristján Örn og Guðmundur Þ. Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is