Katar í átta liða úrslit - Versti árangur Þýskalands á HM

Danir burstuðu Kóata með tólf marka mun.
Danir burstuðu Kóata með tólf marka mun. AFP

Katar fylgir Dönum í átta liða úrslit á heimsmeistaramóti í handknattleik sem fram fer í Egyptalandi en þetta varð ljóst eftir 38:26-sigur Danmerkur gegn Króatíu í milliriðli 2 í Kaíró í kvöld.

Danir leiddu með tveimur mörkum í hálfleik, 17:15, en í síðari hálfleik stungu Danir af og Króatar áttu engin svör við varnarleik danska liðsins.

Danir enda í efsta sæti milliriðils 2 og mæta Egyptalandi í átta liða úrslitum en Katar, sem endaði í öðru sæti milliriðils 2, mætir Svíþjóð.

Danmörk: Emil M. Jakobsen 8, Jacob T. Holm 6, Nikolaj Oris Nielsen 5, Anders Zachariassen 4, Nikolaj Laeso Christensen 3, Mads Mensah Larsen 3, Johan P. Hansen 3, Magnus Saugstrup Jensen 3, Lasse B. Andersson 2, Kevin Moller 1.

Króatía: Marino Maric 6, Igor Karacic 5, Ivan Martinovic 3, Ivan Cupic 3, Zlatko Horvat 2, Marko Mamic 2, Halil Jaganjac 2, David Mandic 1, Luka Sebetic 1, Domagoj Duvnjak 1.

Þá gerðu Alfreð Gíslason og lærisveinar hans í þýska landsliðinu 23:23-jafntefli gegn Póllandi í milliriðli 1 en hvorugt lið átti möguleika á því að fara áfram í átta liða úrslitin fyrir leik dagsins.

Þjóðverjar enduðu í þriðja sæti milliriðils 1 og ljúka leik í tólfta sæti heimsmeistaramótsins sem er versti árangur þýska liðsins á HM frá upphafi.

Þá er þetta í fyrsta sinn frá árinu 2002 sem Króatar komast ekki áfram í átta liða úrslit á stórmóti.

Pólland: Przemyslaw Krajewski 5, Szymon Sicko 4, Arkadiusz Moryto 3, Maciej Gebala 3, Arkadiusz Moryto 3, Maciej Pilitowski 2, Rafal Przybylski 1, Tomasz Gebala 1, Patryk Walczak 1.

Þýskaland: Philipp Weber 4, David Schmidt 4, Uwe Gensheimer 3, Paul Drux 3, Marcel Schiller 3, Johannes Golla 2, Kai Hafner 1, Timo Kastening 1, Julius Kuhn 1, Sebastian Firnhaber 1.

Alfreð Gíslason, þjálfari þýska liðsins.
Alfreð Gíslason, þjálfari þýska liðsins. AFP
mbl.is