Danir heimsmeistarar annað sinn í röð

Danir fögnuðu vel og innilega í leikslok í Egyptalandi í …
Danir fögnuðu vel og innilega í leikslok í Egyptalandi í dag. AFP

Danir eru heimsmeistarar í handknattleik karla í annað sinn í sögunni og annað sinn í röð eftir 26:24-sigur á Svíþjóð í úrslitaleiknum í Egyptalandi í dag. Leikurinn var lengst af hnífjafn og var staðan 13:13 í hálfleik en Danir voru skrefinu á undan eftir hlé og unnu að lokum sigur.

Liðin skiptust á að hafa forystuna í fyrri hálfleik og varði Andreas Palicka nokkrum sinnum vel fyrir Svía sem náðu tveggja marka forystu undir lok hálfleiksins, 13:11, en tvö dönsk mörk sáu til þess að staðan var jöfn í hléinu. Eftir það færðu ríkjandi heimsmeistararnir sig svo upp á skaftið með Mikkel Hansen í fararbroddi en hann var markahæstur með sjö mörk.

Svíar voru þó með forystu um stundarfjórðung fyrir leikslok, 19:18, en þá tók Jacob Holm til sinna ráða í danska liðinu, skoraði fjögur af næstu fimm mörkum leiksins, staðan orðin 22:20 Dönum í vil og eftir það var ekki litið til baka. Niklas Landin var drjúgur í marki Dana, varði 14 skot alls og lokaði markinu síðustu mínúturnar er Danir sigldu í höfn sínum öðrum heimsmeistaratitli í röð.

Danmörk: Mikkel Hansen 7, Nikolaj Oris Nielsen 5, Jacob T. Holm 4, Magnus Saugstrup Jensen 3, Magnus Landin Jacobsen 2, Henrik Mollgaard Jensen 2, Mathias Gidsel 1, Lasse B. Andersson 1, Mads Mensah Larsen 1.

Svíþjóð: Hampus Wanne 5, Albin Lagergren 4, Daniel Pettersson 2, Felix Claar 2, Fredric Pettersson 2, Lukas Sandell 2, Jim Gottfridsson 2, Lucas Pellas 2, Jonathan Carlsbogard 1, Valter Chrintz 1, Max Darj 1.

Mikkel Hansen fagnar í úrslitaleiknum í dag, hann var markahæstur …
Mikkel Hansen fagnar í úrslitaleiknum í dag, hann var markahæstur Dana með sjö mörk. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert